Fréttir

Leikskrár Freyvangsleikhússins og Leikfélags Hörgdæla

Þessa dagana er Leikfélag Hörgdæla að sýna leikritið Með vífið í lúkunum og Freyvangsleikhúsið að sýna Saumastofuna. Af því tilefni drógum við fram leikskrár frá þessum félögum.

Verkamannafélag Akureyrar var fyrsta eyfirska félagið í ASÍ

Laugardaginn 12. mars var þess minnst með ýmsum hætti að 100 ár eru liðin frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Samkvæmt fyrstu lögum félagsins var tilgangur sambandsins að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna á grundvelli jafnaðarstefnunnar, efla og bæta líkamlegan og andlegan hag alþýðu og kjósa menn úr sambandinu til opinberra starfa fyrir bæjar- og sveitarfélög. Stofnfélög ASÍ voru sjö, öll úr Reykjavík og Hafnarfirði. Fyrsta eyfirska félagið til þess að óska eftir inngöngu í ASÍ var Verkamannafélag Akureyrar og var það í árslok 1917.

8. mars 1866

Eftirfarandi skrifaði Sveinn Þórarinsson amtsskrifari í dagbók sína 8. mars 1866:   Logn og frostlaust veður blítt.  Nú er landfastur ís fyrir öllu norðurlandi og hefir sumstaðar orðið töluverður höfrungafengur. Finsen vitjaði mín og var ég aumur.  Austan póstur kom loksins.  BF Sigurbirni.   Þegar Sveinn Þórarinsson skrifaði þessar línur bjó hann á Akureyri, í því húsi sem seinna átti eftir að vera þekkt sem Nonnahús enda umræddur Sveinn faðir Nonna.  Finsen, sem Sveinn talar um, var Jón Finsen héraðslæknir í austurhéraði norðuramtsins.  BF stendur fyrir bréf frá.  

Tónlistarskólinn á Akureyri 70 ára

Laugardagurinn 20. febrúar s.l. var dagur tónlistarskólanna.  Tónlistarskólinn á Akureyri hélt upp á daginn með stórtónleikum þar sem fram komu hljómsveitin 200.000 naglbítar og um 400 nemendur skólans. Flutt voru lög naglbítanna ásamt vel þekktum lögum, meðal annars í flutningi Helenu Eyjólfs en hún var leynigestur tónleikanna.

Svíar salta síld í Hrísey

Árið 1915 tók Alex Quirist í Gautaborg lóð á leigu í Hrísey og byggði all stóra síldarsöltunarstöð.  Stöðin samanstóð af tveimur húsum og bryggjum.  Húsin settu mikinn svip á þorpið, sem myndast hafði upp af svonefndu Sandshorni.

Skjöl frá Slippstöðinni á Akureyri

Það er mikið um að vera í Héraðsskjalasafninu á Akureyri þessa dagana. Tólf vörubretti af skjölum komu þar í hús í gær og er nú unnið að því að koma skjölunum fyrir í hillum.

Norræni skjaladagurinn 14. nóvember

Norræni skjaladagurinn er árviss viðburður, þar sem skjalasöfn á öllum Norðurlöndum veita aðgang að ýmsum heimildum sem þau varðveita og fræðslu til þeirra sem vilja kynna sér betur starfsemi þeirra. Að þessu sinni fjalla öll skjalasöfnin á Norðurlöndum um sama viðfangsefnið sem ber yfirskriftina: Gränslöst, en ákveðið var að nota án takmarkana á Íslandi. Allt líf okkar er bundið einhvers konar takmörkum. Við fæðumst sem íbúar í ríki sem á sín takmörk. Sumir eiga land sem er bundið landamerkjum og aðrir eiga íbúð sem hefur sín lóðamörk. Þjóðflutningarnir sem við verðum vitni að nú á tímum eru gott dæmi um hvernig slík hugtök verða næsta marklaus þegar milljónir manna taka sig upp frá heimilum sínum og leita nýs lífs í nýju landi.

Sýningin - Vér heilsum glaðar framtíðinni - stendur nú yfir

Farandsýningin "Vér heilsum glaðar framtíðinni" var opnuð 2. nóvember í húsi Amtsbókasafns og Héraðsskjalasafns, en hún er hluti samnefndrar sýningar er opnuð var í Þjóðarbókhlöðu 16. maí síðastliðinn. 

Gagnmerkar heimildir afhentar Héraðsskjalasafninu

Nú í vikunni var safninu færð gjörðabók Hins eyfirska ábyrgðarfélags frá árunum 1867 til 1876. Í henni segir m.a. frá því að þrír undirbúningsfundir að stofnun félagsins voru haldnir frá 1. nóvember 1867 til 14. janúar 1868 en stofnfundurinn var haldinn 14. febrúar 1868.

Dóttir - mamma - amma ?

Dóttir - mamma - amma er þemað á Akureyrarvöku, árlegri bæjarhátíð í tilefni af afmælisdegi Akureyrarbæjar.  Því er upplagt að birta hér mynd af þremur konum sem ekki er vitað hverjar eru, en gætuð passað inn í ofangreint þema. Myndin er úr einkaskjalasafni Önnu Kristinsdóttur fyrrum húsfreyju í Fellsseli í Köldukinn.Ef einhver þekkir konurnar eru ábendingar vel þegnar í síma 460-1290 eða á netfangið herak@herak.is