Fréttir

Erlingur Friðjónsson (1877-1962) kaupfélagsstjóri og alþingismaður

Þann 7. febrúar s.l. voru 140 ár frá því að Erlingur Friðjónsson fæddist en hann var bóndasonur frá Sandi í Aðaldal. Erlingur ólst upp á Sandi en fór svo í Ólafsdalsskóla og lauk þaðan prófi 1903 en átti síðan heimili á Akureyri. Á Akureyri vann hann fyrst við smíðar og daglaunavinnu en frá 1915 var hann forstöðumaður Pöntunarfélags verkamanna og síðan, er upp úr því var stofnað Kaupfélag verkamanna árið 1918, varð hann kaupfélagsstjóri þar. Gegndi hann því starfi til 1959. Erlingur setti sterkan svip á félagslíf á Akureyri. Á yngri árum var hann í Ungmennafélagi Akureyrar og gegndi hann þar formennsku um tíma og var héraðsstjóri ungmennafélaganna í Norðlendingafjórðungi. Hann var um skeið formaður Verkamannafélags Akureyrar, Verkalýðsfélags Akureyrar og forseti Verkalýðssambands Norðurlands. Einnig átti hann sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins. Formaður Byggingarfélags verkamanna á Akureyri var hann um langan tíma. Hann átti sæti í bæjarstjórn Akureyrar óslitið í 31 ár, frá 1915 til 1946 og var þingmaður Akureyrarkaupstaðar 1927–1931.

Páll Jónsson Árdal (1857-1930) skáld og kennari

Páll Jónsson Árdal fæddist að Helgastöðum í Eyjafirði 1. febrúar 1857 eða fyrir rúmum 160 árum síðan. Páll ólst upp á Helgastöðum og fór síðan í Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og tók þaðan próf 1882. Strax og Páll hafði lokið námi sínu á Möðruvöllum fór hann að fást við kennslu en stundaði um langt skeið jafnframt vegagerð á sumrum. Hann kenndi fyrst austur á Fljótsdalshéraði en frá 1883 til 1926 við Barnaskólann á Akureyri. Páli var mjög eiginlegt að fræða og kryddaði hann gjarnan kennsluna og frásögn með sögum, bæði raunverulegum og þeim sem hann bjó til sjálfur um leið. Mörg stílsefni hans voru sögur, sem hann bjó til jafnóðum og börnin skrifuðu. Flestar væru þær um dýr og voru þær jafnan gerðar með það fyrir augum að vekja ást barnanna til dýranna og samúð með þeim því Páll var mjög mikill dýravinur.

Safnið fékk góða gjöf

Héraðsskjalasafninu á Akureyri var færð góð gjöf nú í vikunni, en það var borðtölva og skanni til notkunar fyrir gesti safnsins á lestrarsal.  Gefendur voru Nýja kaffibrennslan og Kjarnafæði á Akureyri. Ónefndur hollvinur og dyggur notandi safnsins hafði fundið til þess að svona tæknibúnað vantaði, þar sem þægilegt gæti verið að geta sjálfur skannað þau skjöl sem verið væri að skoða og getað tekið þau þannig með sér. Hann hafði síðan forgöngu um það að áðurnefnd fyrirtæki keyptu þessi tæki og gáfu safninu. Helga Örlygssyni hjá Nýju kaffibrennslunni og Eiði Gunnlaugssyni hjá Kjarnafæði færum við bestu þakkir.

Jakob Tryggvason (1907-99), orgelleikari og tónlistarkennari

Jakob Tryggvason fæddist að Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 31. janúar 1907. Hann hóf nám í orgelleik við fermingaraldur í heimabyggð en fór seinna til Reykjavíkur og sótti einkatíma og var í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Jakob var ráðinn orgelleikari við Akureyrarkirkju 1941 og sinnti því starfi til 1945 er hann fór til framhaldsnáms í London. Þar var Jakob við nám í The Royal Academy of Music til ársins 1948. Frá þeim tíma var hann organleikari við Akureyrarkirkju óslitið til ársins 1986. Jakob var kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Akureyrar frá 1950-1974 og stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar um tuttugu ára skeið. Hann stjórnaði Lúðrasveit Barnaskóla Akureyrar um árabil og kenndi tónmennt við Oddeyrarskóla.

Jón Davíðsson (1837-1923) bóndi Litla-Hamri, Kroppi, Hvassafelli og Reykhúsum

Jón Davíðsson fæddist 7. janúar 1837 í Kristnesi í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Davíð Jónsson og Sigríður Davíðsdóttir, bændur í Kristnesi 1830-40 og Litla-Hamri 1840-75. Jón Davíðsson bjó á Litla-Hamri 1875-79, á Kroppi 1879-89, í Hvassafelli 1889-1900 og í Reykhúsum 1900-02. Jón lést 8. maí 1923 í Reykhúsum.

Jólaskrá Jóns Rögnvaldssonar bónda á Leifsstöðum 1862-1882

Senn koma jólin og af því við Íslendingar eigum mikið undir veðrinu er ekki úr vegi að kíkja í veðurspárit. Jólaskrá Jóns Rögnvaldssonar bónda á Leifsstöðum í Kaupvangssveit 1865-1882 hefst á þessum orðum (að nokkur fært til nútímastafsetningar): Lítil búmannaregla eftir daglegri reynslu, saman skrifuð. Á jólanóttina taka menn vara hvursu að viðra muni árið um kring.  Ef hreint veður og klárt, kyrrt og regnlaust er á jólanóttina og á aðfangadagskvöldið þá halda menn verði friðsamt ár og svo þar á móti ef annað viðrar.

Norræni skjaladagurinn 12. nóvember

Norræni skjaladagurinn er árviss viðburður þar sem skjalasöfnin á Norðurlöndum veita aðgang að heimildum sem þau hafa í sínum fórum. Tekið er fyrir eitt viðfangsefni á ári og að þessu sinni ber það yfirskriftina „Til hnífs og skeiðar“.

Meðal fólksins er vettvangur minn - Sýning helguð Kristjáni frá Djúpalæk

Í nóvember mun Héraðsskjalasafnið minnast þess að 100 ár eru frá því að Kristján Einarssonar frá Djúpalæk fæddist.  Í anddyri Amtsbókasafns og Héraðsskjalasafns er sett upp sýningin „Meðal fólksins er vettvangur minn“ sem er tilvitnun í ljóð Kristjáns „Þetta land“.

Kvennafrídagurinn 24. okt.

Í dag er 41 ár frá því að konur fylktu liði og komu saman víða um land til að vekja athygli á ójafnri stöðu og launamun kynjanna.Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru konur á Íslandi að meðaltali með 28,7% lægri tekjur en karlar og hafa samkvæmt því lokið vinnudegi sínum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur. Konur um land allt ætla því að ganga út af vinnustöðum kl. 14.38 í dag en þá er miðað við vinnutímann 9-17.

Afhending 2016/86

Fyrir skömmu komu hingað systur og afhentu skjöl ömmu sinnar, Önnu Maríu Ísleifsdóttur. Anna María er ágætt dæmi um einstakling sem þarf að hafa svolítið fyrir að finna í manntalsgögnum því þar er hún ýmist skrifuð Anna eða María og stundum undir báðum nöfnum. Anna María fæddist 1883 og þegar hún var á fjórða ári lést faðir hennar, þá bóndi á Hrappstöðum í Kræklingahlíð. Móðir hennar, Rósa Ólafsdóttir, bjó eitthvað áfram á Hrappstöðum en síðar hjá dóttur sinni á Hesjuvöllum. Nokkur af systkinum Önnu Maríu fluttist til Kanada og mamma hennar flutti þangað líka.