Rósa Einarsdóttir (1882-1965) frá Stokkahlöðum

Rósa Einarsdóttir var formaður sambandsins 1933-1952
Rósa Einarsdóttir var formaður sambandsins 1933-1952

Sókn og vörn þau sífellt herða,
sést það best á nýjum blöðum.
Yfirvaldið er að verða
undir Rósu á Stokkahlöðum.

Vísur verða til af ýmsu tilefni en þessi varð til árið 1936 og það var Davíð Jónsson hreppstjóri á Kroppi sem orti. Sögupersónurnar voru Sigurður Eggerz sýslumaður og Rósa Einarsdóttir á Stokkahlöðum.

Rósa Einarsdóttir fæddist í Gnúpufelli í mars 1882 eða fyrir 135 árum síðan. Hún var dóttir Einars Sigfússonar og Guðríðar Brynjólfsdóttur en Einar var sonur hjónanna í Gnúpufelli. Einar og Guðríður bjuggu í Hrísum 1887-1891. Frá 1891 bjuggu þau á Stokkahlöðum en Einar lést 1926 og Guðríður bjó áfram til 1930 er börn þeirra, Rósa, Aldís og Bjarni tóku við búskapnum.

Rósa var fjölhæf gáfu- og hugsjónakona og tók virkan þátt í þeim menningar og framfaramálum sem efst voru á baugi í sveitinni hverju sinni. Hún var ein af stofnendum Kvenfélagsins Iðunn í Hrafnagilshreppi árið 1932 og var gjaldkeri félagsins frá upphafi til aðalfundar 1940 en þá var hún kjörin formaður félagsins. Hún var formaður til 1949 er hún baðst undan kosningu.

Þegar Héraðssamband eyfirskra kvenna (H.E.K.) var stofnað árið 1933 var Rósa kjörin formaður sambandsins. Helsta verkefni sambandsins var í upphafi endurreisn kvennaskóla í Eyjafirði en strax eftir að sambandið komst á legg komst hreyfing á málið. Rósa Einarsdóttir var einn af fulltrúum H.E.K. í sérstakri nefnd sem vann með fulltrúum sýslunefndar að undirbúningi að stofnun skólans. Undirbúningi miðaði vel og um sumarið 1936 átti að ganga frá ráðningu forstöðukonu en þá kom upp ágreiningur milli sýslumanns annars vegar og fulltrúa HEK hins vegar. Rósa vann ötullega að framgangi málsins, skrifaði í blöð og til forsætisráðherra, sem úrskurðaði konunum í H.E.K. í vil. Þá orti Davíð Jónsson fyrrnefnda vísu. Um málið má lesa meira t.d. í Tímanum 6. ágúst 1936 og Nýja dagblaðinu 31. júlí 1936.

Húsmæðraskólinn á Laugalandi var settur í fyrsta sinn 3. október 1937 og fyrsta forstöðukona skólans var Valgerður Halldórsdóttir.

Rósa lést 8. ágúst 1965 á Kristneshæli.

Yfirlit yfir skjöl Rósu Einarsdóttur á Héraðsskjalasafninu er að finna hér.