Fréttir

Afmælisdagur Akureyrarkaupstaðar er í dag - höfuðdag

Í dag er Höfuðdagurinn en 29. ágúst hefur heitið svo frá því að Heródes lét hálshöggva Jóhannes skírara að áeggjan konu sinnar og stjúpdóttur árið 31 e.kr. Gömul trú er sú að veðurfar muni breytast með Höfuðdegi og segir svo frá því á einum stað: „Bregður þá vanalega veðráttu og helzt þá hið sama í 20 daga." Akureyrarkaupstaður er 151 árs í dag og er þess skemmst að minnast að mikil hátíðahöld voru á Akureyri í tilefni af 150 ára afmælinu árið 2012. Hægt er að rifja upp eldri fréttir hér á síðunni sem birtust vikulega af tilefni afmælisins og einnig er enn hægt að skoða síðuna https://www.facebook.com/Akureyri150 en þar má sjá margt fróðlegt og skemmtilegt um afmælisárið.

Eyjafjörður fyrir 70 árum

Enn er haldið áfram undir yfirskriftinni ,,Skjöl eru skemmtileg“.  Í ágústmánuði eru það skjöl frá árinu 1943 sem eru til sýnis á 1. hæðinni en fyrir valinu urðu námsbækur Pálma Brynjólfssonar frá Teigi.  Pálmi var fæddur 26. febrúar 1931 en lést 2. apríl 1945, fjórtán ára að aldri. Teigur var í Hrafnagilshreppi en skólaárið 1943-44 var kennt á tveimur stöðum í hreppnum, í Hvammi fyrir börn í nyrðri hlutanum og í Hólshúsum fyrir börnin sunnar. Sigurður Gunnar Jóhannesson, seinna bóndi í Litla-Hvammi og Hrafnagili, annaðist kennsluna og Jón Kristjánsson frá Espigrund kenndi söng.  Kennt var annan hvorn dag á hvorum stað en skólahald hófst 14. og 15. október og lauk 17. og 18. apríl.