Eyjafjörður fyrir 70 árum

Enn er haldið áfram undir yfirskriftinni ,,Skjöl eru skemmtileg“.  Í ágústmánuði eru það skjöl frá árinu 1943 sem eru til sýnis á 1. hæðinni en fyrir valinu urðu námsbækur Pálma Brynjólfssonar frá Teigi.  Pálmi var fæddur 26. febrúar 1931 en lést 2. apríl 1945, fjórtán ára að aldri.

Teigur var í Hrafnagilshreppi en skólaárið 1943-44 var kennt á tveimur stöðum í hreppnum, í Hvammi fyrir börn í nyrðri hlutanum og í Hólshúsum fyrir börnin sunnar. Sigurður Gunnar Jóhannesson, seinna bóndi í Litla-Hvammi og Hrafnagili, annaðist kennsluna og Jón Kristjánsson frá Espigrund kenndi söng.  Kennt var annan hvorn dag á hvorum stað en skólahald hófst 14. og 15. október og lauk 17. og 18. apríl. 
Í hreppnum voru 20 skólaskyld börn, 16 sóttu skóla en hin fjögur nutu heimakennslu.  Skólarnir voru svo kallaðir heimagönguskólar en ljóst er af fundargerðum fræðslunefndarinnar í hreppnum að það fyrirkomulag þótti frekar óheppilegt.  Þar var m.a. rætt um að fá bílstjóra til þess að koma börnum til og frá skóla og jafnvel að samræma mjólkurflutninga og keyrslu skólabarna en til þess kom ekki vegna fjárskorts.  Um haustið 1946 var skólahaldinu breytt á þann veg að aðeins var kennt í Litla-Hvammi og þar var komið á heimavist.  Yngri og eldri deild var þá kennt til skiptis.