Fréttir

Bretavinnan er betri vinna?

Þegar breski herinn kom til Akureyrar leysti hann óvart eitt stærsta vandamál kaupstaðarins, atvinnuleysið.

Herinn kemur til Akureyrar

Þeir komu til bæjarins með varðskipinu Ægi en Akureyringar höfðu vitað það í nokkra daga að þeir voru á leiðinni og bjuggust við hinu versta. Um bæinn gengu sögur, óvissan var mikil og vangaveltur ýmsar; hvernig yrðu þeir í háttum, mun koma þeirra leiða til loftárása og yrði konum óhætt? Svo komu þeir og dagurinn var 17. maí og árið 1940.

Loftvarnanefnd Akureyrar og kirkjuklukkurnar

Árin 1940 – 1942 var starfandi á Akureyri, líkt og víðar á landinu, loftvarnarnefnd. Upphafið má rekja til þess að Sigurður Eggerz bæjarfógeti kallaði þá Steinn Steinsen bæjarstjóra og Gunnar Schram símstjóra sér til aðstoðar í nefndina. Nefndin kom saman til fyrsta fundar 11. júní 1940 og setti saman leiðbeiningar fyrir almenning og ræddi um staði sem nota mætti til skjóls ef til loftárása kæmi.