Bretavinnan er betri vinna?

Ágrip úr dagbók Heiðreks Guðmundssonar fyrir 1943. Honum féll illa við „…belgingin í offisérunum…“
Ágrip úr dagbók Heiðreks Guðmundssonar fyrir 1943. Honum féll illa við „…belgingin í offisérunum…“

Þegar breski herinn kom til Akureyrar leysti hann óvart eitt stærsta vandamál kaupstaðarins, atvinnuleysið.

Bretavinnan var mörgum kærkomin. Þannig fengu þvottakonur strax í byrjun hernámsins vinnu við að þvo af setuliðinu og þær héldu sinni vinnu lengur en margur eftir að setuliðsvinna fór minnkandi við komu bandaríska hersins.  Mismunandi var hvernig þær fengu greitt fyrir þetta starf. Við sumar var gerður fastur samningur og samin verðskrá þar sem talið var upp hvað kostaði að þvo hvert einstakt stykki.

 

Katrín Jósefsdóttir gerði fastan samning við setuliðið og þvoði að jafnaði 86 pakka af þvotti á viku. Hún hefur líklega unað sínum hag vel þrátt fyrir erfiða vinnu en fyrir þvottana fékk Katrín 172 krónur borgaðar vikulega og var greitt með íslenskum peningum. Áður hafði hún verið vinnukona og haft 150 krónur í árslaun, frítt fæði og húsnæði fyrir sig og barn sitt. Það töldust á þeim tíma allþokkaleg vinnukonulaun. Því er ekki að undra að Katrínu þótti hún vera orðin rík strax við fyrstu útborgun.

Ekki undu allir hag sínum vel í Bretavinnunni. Heiðrekur Guðmundsson, verkamaður og skáld, talar um Bretavinnuna í ágripi af dagbók sinni og segir m.a. um árið 1942: „Þrjá fyrstu mánuði ársins vann ég hjá setuliðinu, en féll það æ þyngra og þyngra.“
Árið 1943 er hann aftur í Bretavinnunni og skrifar eftirfarandi: „ Fyrstu 2 - þrjá mánuði þessa árs vann ég hjá setuliðinu sem smiður – fyrir milligöngu Friðjóns, og hafði mikið kaup – um 350 kr. á viku, en líkaði illa við belgingin í offisérunum og varð hálffegin er okkur var sagt upp í marz mánuði.“  Góð laun voru ekki allt. Síðar sama ár var Heiðrekur kominn með vinnu hjá Kaupfélagi verkamanna, fyrst á skrifstofunni en síðan í matvörudeildinni og fékk 300 kr. í grunnkaup á mánuði. Um þá vinnu skrifar hann: „líkaði mér það allvel.“

 

Heimildir:

Hskj.Ak. G-207/15. Úr fórum Jóns S. Sveinbjörnssonar og Lovísu Pétursdóttur. Þvottasamningur.
Hskj.Ak. G-264/56. Úr fórum Heiðreks Guðmundssonar skálds. Ágrip af dagbók 1940-1944.
Jón Hjaltason. (1991). Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar.4