Fréttir

Páll Jónsson Árdal (1857-1930) skáld og kennari

Páll Jónsson Árdal fæddist að Helgastöðum í Eyjafirði 1. febrúar 1857 eða fyrir rúmum 160 árum síðan. Páll ólst upp á Helgastöðum og fór síðan í Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og tók þaðan próf 1882. Strax og Páll hafði lokið námi sínu á Möðruvöllum fór hann að fást við kennslu en stundaði um langt skeið jafnframt vegagerð á sumrum. Hann kenndi fyrst austur á Fljótsdalshéraði en frá 1883 til 1926 við Barnaskólann á Akureyri. Páli var mjög eiginlegt að fræða og kryddaði hann gjarnan kennsluna og frásögn með sögum, bæði raunverulegum og þeim sem hann bjó til sjálfur um leið. Mörg stílsefni hans voru sögur, sem hann bjó til jafnóðum og börnin skrifuðu. Flestar væru þær um dýr og voru þær jafnan gerðar með það fyrir augum að vekja ást barnanna til dýranna og samúð með þeim því Páll var mjög mikill dýravinur.

Safnið fékk góða gjöf

Héraðsskjalasafninu á Akureyri var færð góð gjöf nú í vikunni, en það var borðtölva og skanni til notkunar fyrir gesti safnsins á lestrarsal.  Gefendur voru Nýja kaffibrennslan og Kjarnafæði á Akureyri. Ónefndur hollvinur og dyggur notandi safnsins hafði fundið til þess að svona tæknibúnað vantaði, þar sem þægilegt gæti verið að geta sjálfur skannað þau skjöl sem verið væri að skoða og getað tekið þau þannig með sér. Hann hafði síðan forgöngu um það að áðurnefnd fyrirtæki keyptu þessi tæki og gáfu safninu. Helga Örlygssyni hjá Nýju kaffibrennslunni og Eiði Gunnlaugssyni hjá Kjarnafæði færum við bestu þakkir.