Magnús Sigurðsson (1847-1925) bóndi og kaupmaður á Grund

Grund á dögum Magnúsar Sigurðssonar. Myndin er frá 1905-1909
Grund á dögum Magnúsar Sigurðssonar. Myndin er frá 1905-1909

Magnús Sigurðsson fæddist að Torfufelli í Eyjafirði í júlí 1847 eða fyrir rúmum 170 árum síðan. Hann  ólst upp í skjóli afa síns og ömmu í Öxnafelli.

Þegar Magnús var 18 ára hóf hann smíðanám að Möðruvöllum í Eyjafirði en samhliða smíðanáminu smíðaði hann ýmsa nytjahluti og seldi nágrönnum.  Áður en Magnús lauk smíðanáminu var hann farinn að huga að sjómennsku og útgerð.  Hann réði sig í skipsrúm og lærði sjómannafræði og 1871 keypti hann helming í skútunni Akureyri og við tók sjómennska á eigin skipi. Magnús varð fljólega afhuga sjómennskunni en hugur hans stefndi að búskap. Magnús hóf búskap á stórbýlinu Grund vorið 1874, fyrst í stað á hálfri jörðinni en frá 1887 á henni allri.

Árið 1883 byrjaði Magnús verslun á Grund, fyrst í stað með smáhluti sem hann smíðaði en svo bættust kaffi, sykur, fataefni og ýmis smávarningur við. Verslunin dafnaði skjótt, vöruúrvalið jókst og viðskiptin náðu víða.

Á Grund byggði Magnús stórt og veglegt hús til íbúðar og verslunar.  Hann byggði upp peningshús og tveggja hæða timburhús með sláturhúsi á neðri hæðinni en fundarsal á þeirri efri.  Magnús er þó sennilega þekktastur fyrir kirkjuna sem hann lét smíða fyrir eigin reikning.  Kirkjan var vígð 12. nóvember 1905.

Magnús keypti Grundarbílinn, hann ræktaði skóg, sléttaði tún, ræktaði bygg og hafra, stofnaði unglingaskóla, lét fé af hendi rakna til menningar og heilsumála.  

Um Magnús má t.d. lesa meira í bók Gunnars M. Magnúss, Dagar Magnúsar á Grund, og í Þeir settu svip á öldina, íslenskir athafnamenn.

Á safninu eru varðveitt skjöl frá Verslun Magnúsar á Grund eins og sjá má á yfirlitinu hér.  Einnig eru varðveitt skjöl frá Magnúsi og fjölskyldu hans eins og sjá má hér og svo er einnig eitthvað af óskráðu efni frá þeim.