02.12.2014
Starfsfólk safnsins verður á fræðslufundi fyrir hádegi miðvikudaginn 3. desember. Þess vegna verður safnið ekki opnað fyrr en kl. 13.00
þann dag.
07.11.2014
Norræni skjaladagurinn er haldinn árlega annan laugardag í nóvember, nú 8. nóv. og er að þessu sinni helgaður vesturförum. Í
Héraðsskjalasafninu á Akureyri er varðveitt mikið magn heimilda sem snerta Vestur-Íslendinga. Þar eru sendibréf, dagbækur, ljósmyndir og
endurminningar fjölmargra einstaklinga sem tóku sig upp og fluttu til fjarlægs lands. Einnig er þar að finna heimildir um ástæður flutninganna, uppboð
og úttektir, kirkjubækur, manntöl og fleiri opinberar heimildir sem snerta brottför fólksins.
30.09.2014
Á tveggja daga ráðstefnu Félags héraðsskjalavarða á Íslandi sem haldin var í Vestmannaeyjum 24. - 26. sept. 2014 var aðallega
fjallað um ný lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og hvað þau hafa í för með sér varðandi rekstur og starfsemi
héraðsskjalasafnanna. Ljóst er að lögin hafa í för með sér auknar skyldur og verkefni m.a. hvað varðar eftirlit, ráðgjöf og
önnur samskipti við skilaskylda aðila en verulega skortir á að söfnin fái nauðsynlegt fjármagn til að mæta þessum kröfum.
23.09.2014
Vegna ráðstefnu Félags héraðsskjalavarða í Vestmannaeyjum verður safnið lokað miðv. 24. september til og með fös. 26 september.
Opnum aftur mánudaginn 29. sept. kl. 10:00.
15.09.2014
Frá og með 16. september verður afgreiðslutími safnsins sem hér segir:
Mánudagar kl. 10:00 - 18:00
Þriðjudagar kl. 10:00 - 16:00
Miðvikudagar kl. 10:00 - 16:00
Fimmtudagar kl. 10:00 - 18:00
Föstudagar kl. 10:00 - 16:00
Lokað laugardaga og sunnudaga.
20.08.2014
Vegna jarðskjálftanna í og við Bárðarbungu grípum við niður í dagbók Ólafs Jónssonar úr ferð hans og
Gunnbjörns Egilssonar um Ódáðahraun í ágúst 1940.
6. ágúst
Við vöknuðum kl. 2 og er þá ennþá hálfrokkið. Ferðbúnir erum við Kl 4. Veðrið er prýðilegt kyrt og
bjart. Þó er ofurlítill þokuslæðingur á Herðubreið, en Kverkfjöllin eru hrein, sömuleiðis Snæfellið.
Við förum fyrst suður með vötnunum og síðan suður í hraunið, stefnum milli Lofts og Upptyppinga ... Smám saman verða hraunhólarnir
strjálli en sandflesjurnar stækka og vikurinn eykst og þegar komið er suður á móts við Hlaupfell göngum við á óslitnum þykkum
vikri. Þá tökum við af okkur þungu gönguskóna en setjum upp létta skó ... og okkur skilar vel suður vikrana í áttina til
Vaðöldunnar.
19.06.2014
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Árið 1882
höfðu konur fengið takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakosninga sem síðan var víkkaður út til jafns við karla árið
1908.
Á Akureyri gerðist það þó að kona kaus til bæjarstjórnar árið 1863.
10.06.2014
Alþjóðlegi skjaladagurinn var í gær, mánudaginn 9. júní. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og
mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Af því tilefni heldur Félag héraðsskjalavarða málþing
fyrir starfsfólk héraðsskjalasafnanna. Málþingið verður á morgun, miðvikudaginn 11. júní. Þess vegna verður
Héraðsskjalasafnið á Akureyri lokað fyrir hádegi 11. júní, en verður opnað aftur kl. 13:30.
27.05.2014
Ný lög um opinber skjalasöfn voru samþykkt á Alþingi föstudaginn 16. maí 2014.
Þau taka bæði til Þjóðskjalasafns Íslands og tuttugu héraðsskjalasafna um land allt. Lögin taka þegar gildi og um leið falla
úr gildi lög nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands, með síðari breytingum.
Sjá má heildartexta laganna á vef alþingis:
http://www.althingi.is/altext/143/s/pdf/1260.pdf
21.05.2014
Í gær, 20. maí, voru Héraðsskjalasafninu á Akureyri afhent merkileg skjöl, sem ekki hefðu mátt glatast. Þar var um að
ræða skjöl frá Vélstjórafélagi Akureyrar sem stofnað var 5. janúar 1919.