17. júní - myndir frá fyrri tíð

Í tilefni af þjóðhátíðardeginum birtast hér 3 myndir frá hátíðahöldum á Akureyri á árabilinu 1944 - ca 1975.



Myndin er úr fórum Jakobs Tryggvasonar og tekin á Ráðhústorgi á lýðveldisdaginn 17. júni 1944.

Jakob Tryggvason fæddist að Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 1907 og andaðist á Akureyri 1999. Hann lauk Samvinnuskólaprófi 1929 og stundaði nám í tónlist í Reykjavík 1931-36 og í London 1945-48. Jakob varð kennari við Tónlistarskólann á Akureyri 1948 og kenndi til 1984. Hann var skólastjóri Tónlistarskólans 1950-74. Auk þess kenndi hann söng í Oddeyrarskóla og Glerárskóla um tíma. Jakob var organleikari við Akureyrarkirkju frá 1941. Hann var stjórnandi Lúðrasveitar Akureyrarí nær tvo áratugi og söngfélagsins Gígjunnar 1967-84. Hann var einnig þjálfari og undirleikari með Smárakvartettinum og Geysiskvartettinum. K. 1936, Unnur Tryggvadóttir (1907-1987).


Myndin er úr skjölum Lúðrasveitar Akureyrar og tekin á Íþróttavellinum á AKureyri 17. júní 1960.

Lúðrasveit Akureyrar var stofnuð 25. október 1942. Myndin birtist einnig í 50 ára afmælisriti Lúðrasveitarinnar (1992), bls. 23.


Myndin er úr fórum Jóns Benediktssonar og tekin á bílasýningu við Oddeyrarskóla á bilinu 1970-1980.

Jón Benediktsson fæddist á Breiðabóli á Svalbarðsströnd 1894 og lést á Akureyri 1991. Hann varð fastráðinn bæjarlögreglumaður á Akureyri 1934 en hafði áður verið í afleysingum í því starfi. Hann var skipaður yfirlögregluþjónn á Akureyri 1935 og gegndi því starfi til 1959. Ókvæntur og barnlaus.