Norræni skjaladagurinn 12. nóvember

Norræni skjaladagurinn er árviss viðburður þar sem skjalasöfnin á Norðurlöndum veita aðgang að heimildum sem þau hafa í sínum fórum. Tekið er fyrir eitt viðfangsefni á ári og að þessu sinni ber það yfirskriftina „Til hnífs og skeiðar“.

Matvælaöflun, verkun, úrvinnsla, umsýsla og neysla matvæla fellur undir þessa víðu yfirskrift og á sama hátt er skortur á mat jafngilt umfjöllunarefni og ofgnótt hans.

Opinberu skjalasöfnin á Íslandi bjóða ykkur velkomin á vef Norræna skjaladagsins árið 2016 . Þar má sjá margvíslega nálgun á viðfangsefnið. Mörg safnanna fjalla um hvernig matvælaframleiðsla breyttist á 20. öld. Fjallað er um félög sem stofnuð voru til þess að bæta nýtingu matvæla, matreiðslubækur, húsmæðraskóla, heimilisbókhald, veitingasölu og hótelrekstur fyrr á tímum svo nokkuð sé nefnt.

Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri var ákveðið að nýta þemað í ár til að beina kastljósi að 4 konum sem áttu og ráku veitingasölur og hótel á Akureyri.

Þetta eru þær Anna Tómasdóttir, Kristín Eggertsdóttir, Vilhelmína Lever og Jóninna Sigurðardóttir. Pistla um þær og þeirra starfsemi er að finna hér.

Safnið er ekki opið á norræna skjaladaginn en sýningin "Meðal fólksins er vettvangur minn" er opin þann dag kl. 11-16.