Innsigli rofið á 100 ára afmælisdegi Kristjáns frá Djúpalæk

Í dag var  smá samkoma á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.  Tilefnið var það að Kristján frá Djúpalæk hafði lagt inn á safnið innsiglaðan pakka árið 1979 og mælt svo fyrir að hann skyldi opnaður í dag, en í dag eru nákvæmlega 100 ár frá því að hann fæddist.
Í pakkanum voru bréfaskipti þeirra Kristjáns frá Djúpalæk og Guðmundar Böðvarssonar á Kirkjubóli í Hvítársíðu frá árunum 1943-1974.

Kristján skrifaði í bréfi til safnsins í febrúar 1979: „Þau voru aldrei skrifuð með geymslu fyrir augum né öðrum ætluð. Þau kunna því að vera full af sleggjudómum um menn og málefni samtímans og má í fæstum tilfellum taka það mjög alvarlega. … Þegar leið á bréfasamband okkar fórum við að ræða um að bréfin skyldu geymd í allt að hálfa öld ef einhverjir skyldu þá hafa gaman af að sjá hvernig menn hugsuðu á þessum árum. Fjarlægð í tíma ætti þá og að vera orðin svo mikil að sársaukalaust sé öðrum mönnum."

Aðalheiður Einarsdóttir, systir Kristjáns frá Djúpalæk fædd 1924, býr á Akureyri og opnaði hún pakkann ásamt Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra kl. 13 í dag.

Bréfin eru nú opin þeim sem vilja kynna sér innihald þeirra á lestrarsal safnsins, en hann er opinn mán.-fös. kl. 10-16.