Manntöl á Akureyri

Með lögum nr. 18 frá árinu 1901 var kveðið á um að lögreglustjórinn í Reykjavík skyldi síðari hluta októbermánaðar ár hvert gera nákvæma skrá yfir alla íbúa kaupstaðarins. Lögin voru síðan útfærð með reglugerð árið eftir. Aðrar sveitarstjórnir tóku upp sams konar skráningu eftir því sem árin liðu, auk þess sem prestar sinntu lögboðnum skyldum sínum um sálnaregistur. Fram til þess tíma er þjóðskránni var komið á fót á árunum 1952-1954 var skráning íbúanna með ýmsum hætti. Ekki var um neina heildarstjórn að ræða og enginn opinber aðili hafði það hlutverk að tryggja samræmda skráningu. Með tilkomu þjóðskrárinnar varð landið eitt skráningarsvæði og ein samræmd íbúaskrá var gerð. 

Manntöl voru gerð á Akureyri síðari hluta árs á hverju ári frá 1902 til 1954. Hér eru birt manntöl frá 1902-1942. Frá árinu 1907 var manntalinu skipt upp í tvær bækur fyrir hvert ár, að undanskildu árinu 1915, sem var skipt upp í fimm bækur.