Akureyrarbær

Akureyrar er fyrst getið í heimildum árið 1562 en 1778 var fyrsta íbúðarhúsið reist þar. Átta árum síðar (1786) varð Akureyri kaupstaður í fyrra sinnið og voru íbúarnir þá 12. Bærinn óx ekki að neinu marki og 1836 missti bærinn kaupstaðarnafnbótina en endurheimti hana 1862.

Fram til 1862 var Akureyri hluti Hrafnagilshrepps en með kaupstaðarréttindunum varð Akureyri að sérstöku sveitarfélagi. Ytri mörk Akureyrar breyttust eftir því sem fleiri jarðir voru innlimaðar í kaupstaðinn og munar líklega mestu um sameiningu Glerárþorps og Akureyrar í ársbyrjun árið 1955.

Núna (2023) eru mörkin við Hörgársveit landamerki Ytra-Krossaness og Brávalla, síðan um Lónsá upp að Mýrarlóni en ofan þess landamerki Hrappstaða og Ásláksstaða. Að sunnan eru mörkin við landamerki Hvamms.