Eyjafjarðarsýsla

Sýslur urðu til sem formlegar stjórnsýslueiningar í kjölfar þess að Íslendingar gengust undir stjórn Noregskonungs á 13. öld. Sýslur voru umdæmi sýslumanna sem fóru með framkvæmdavald og dómsvald í héraði en sýsluskipting var lengi á reiki, sýslur misstórar og mótaðar af samkomulagi hvers sýslumanns við konung eða hirðstjóra hans. Í tímans rás fengu sýslumörk fastari skorður og fengu nöfn sem héldust eftir það. Hlutverk sýslumanna tók einnig breytingum í sögulegu ljósi en sýsluskipting landsins var einnig notuð af ýmsu öðru tilefni. Sýsla sem stjórnsýslueining var lögð niður árið 1986 og í stað þeirra komu héraðsnefndir og héraðsdómstólar.

Eyjafjarðarsýsla náði frá utanverðum Ólafsfirði að vestanverðu, inn Eyjafjörð til fjalla og að Austurhlíð til austurs. Hrísey og Grímsey tilheyrðu einnig Eyjafjarðarsýslu.