Vilhelmína var ekki eina konan á kjörskrá 1863

Kjörskrá á Akureyri 4. mars 1863
Kjörskrá á Akureyri 4. mars 1863

Vilhelmína Lever höndlunarborgarinna á Akureyri var fyrsta konan sem kaus í opinberum kosningum á Íslandi þegar hún kaus við fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í mars 1863.  Til þess að mega kjósa þurftu kjósendur að vera heiðarlegir, vera fullmyndugir menn þ.e. standa á eigin fótum, vera 25 ára eða eldri, uppfylla viss skilyrði varðandi búsetu og greiða 18 fiska eða meira til bæjarsjóðs Akureyrar.  Vilhelmína uppfyllti öll þessi skilyrði en það gerði Kristbjörg Þórðardóttir húskona líka. Vilhelmína mætti á kjörstað en Kristbjörg ekki.

Kristbjörg fæddist á Sörlastöðum í Fnjóskadal árið 1818 en hún var dóttir Þórðar Pálssonar og Bjargar Halldórsdóttur, sem oft eru kennd við Kjarna.  Kristbjörg þótti mjög efnileg að skarpleika og færni og reyndist hin mesta búsýslukona.  Kristbjörg giftist 1841 Metúsalem Jónssyni frá Möðrudal og bjuggu þau þar um hríð en eftir nokkra ára sambúð kenndu þau bæði vanheilsu og leituðu læknishjálpar.  Metúsalem lést 1850, 32 ára gamall, en eftir lát hans var Kristbjörg fyrst hjá ættingjum og vinum austur á landi en árið 1858 flutti hún til Akureyrar.  Á Akureyri vann hún fyrir sér með saumum en að öðru leyti lifði hún af eigum sínum. Árið 1862 bjó hún í bæ sínum, þar sem nú er Aðalstræti 28.  Frá Akureyri fluttist hún svo árið 1865 og þá fyrst í Víðidal á Fjöllum en tveimur árum síðar giftist hún sr. Pétri Jónssyni og fluttist að Valþjófsstað í Fljótsdal. Seinna fluttu þau að Berufirði þar sem sr. Pétur lést. Eftir það átti hún heima á Hjaltastað og hóf svo búskap með dóttur sinni í Geitagerði í Fljótsdal.

Upp úr aldamótunum 1900 flutti Kristbjörg til Akureyrar og andaðist þar 1908.  Þótti hún hafa verið hin merkasta kona.

Kjörskráin frá því í mars 1863 er meðal þess sem er á sýningunni ,,Heill þér mæta, merka kona".