Þorrabragur

Eyjafjarðarsól á bóndadaginn 25. janúar 2013
Eyjafjarðarsól á bóndadaginn 25. janúar 2013

Í tilefni bóndadags birtist hér kvæðið Þorrabragur. Höfundur þess er Benedikt Valdemarsson, en ekki er vitað hvar eða hvenær það var flutt, líklega þó í Saurbæjar- eða Öngulsstaðahreppi.  Kvæðið er í einkaskjalasafni Aðalgeirs Ólafs Jónssonar, sem lengst af bjó í Hólum í Saurbæjarhreppi. Skrá yfir skjalasafn Ólafs sem varðveitt er á Héraðsskjalasafninu má sjá hér.

Þorrabragur
Velkomnir hingað góðir gestir,
sem gátuð mætt hér og eru sestir.
Þið lagt hafið á ykkur langa göngu,
sem lokið gæti með puði ströngu.

Það komið er undir ykkur sjálfum
árangur þessi fullum og hálfum.
En neytið þess vel, sem nú er á borðum
og nefna ég vil með fáum orðum.

Margt er að líta, sem menn næri
magála, svið og hangin læri,
saltað kjöt og súra hvali,
svo menn ekki um drykkinn tali.

Heldur skal nú úr hnefa stífa
harðfisk og kjötmat í sig rífa.
Gleraugnapylsu og kæfukagga
kæsta osta og lundabagga.

Laufabrauð er hér og lostæt fita
lifrapylsa með hákarlsbita.
En kannske vanti hér sumar sortir
þið sjáið það best hvað helst á skortir.

Og þegar ég augum yfir renni
áfergju sting í magann kenni.
En gaman er að sjá ykkur saman
í sjöunda himni og pússuð í framan.

Margt er hér líka af öðru efni
af ástæðum vissum ég ei það nefni,
sumt er þó ríkt í manna minnum
minnsta kosti einstaka sinnum.

En völ er á ræðum gríðar góðum
svo gjallið spýtist úr andans hlóðum.
Svo mætti einnig til gamans gala
,,Gott áttu hrísla á grænum bala“.

Bragi höfum við bjarta sungið
svo belgurinn hafði næstum sprungið.
Með þrumuröddu skal þorralag taka,
og þá verður ekkert ,,bíbí og blaka“.

Eins og þið sjáið og upp er talið
ætti ekki þetta að vera svo galið.
Að endingu dansins þið ætlið að njóta
svo allt verð uppi til handa og fóta.

Benedikt Valdemarsson