Sýningin Hús og heimili opnuð á Norræna skjaladaginn 11. nóvember

Sigurhæðir
Sigurhæðir

Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum sameinuðust árið 2001 um að halda árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember. Þriðja hvert ár er sameiginlegt þema en þess á milli hefur hvert land sitt þema.

Eitt markmiða norræna skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl af ýmsu tagi eiga erindi á skjalasöfn. Því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn, eða Þjóðskjalasafn, ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við, eða vill koma í örugga vörslu.

Yfirskrift skjaladagsins árið 2017 er séríslensk og nefnist „Hús og heimili“. Fjallað er um skjöl og skjalaflokka sem tengjast húsum, húsagerð, híbýlum, íbúum, heimilishaldi og fleiru sem tengja má við yfirskriftina.

Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin standa sameiginlega að gerð vefsíðunnar skjaladagur.is og þar birtast á hverju ári margvíslegir pistlar frá söfnunum undir yfirskrift hvers árs fyrir sig. Finna má ýmis dæmi um heimildir sem tengjast þema dagsins með einhverjum hætti á þessum vef. Hægt er að lesa nánar um þemað í leiðara skjaladagsins og kanna hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem hafa opið á skjaladeginum 11. nóvember 2017.

Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, nánar tiltekið í anddyri á 1. hæð verður af þessu tilefni opnuð sýning laugardaginn 11. nóvember. Sýningarefnið er í takt við yfirskrift dagsins, hús og heimili, en sýndar eru fjölbreyttar heimildir sem notast má við þegar saga húsa er könnuð. Sýnd eru skjöl og myndir sem varða húsin og heimilin Lundargötu 10, Sandhóla í Eyjafjarðarsveit, Sigurhæðir á Akureyri og Steinsstaði í Öxnadal.

Sýningin mun standa út nóvember og er opin virka daga kl. 10:00-19:00 og laugardaga kl. 11:00-16:00.