Sýningin, Fólkið í kaupstaðnum, opnuð í dag

Úr sýningarkassa um Jón Borgfirðing og fjölskyldu
Úr sýningarkassa um Jón Borgfirðing og fjölskyldu

Í dag, föstudaginn 24. ágúst  hefst sýning Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, Fólkið í kaupstaðnum, en hún er sett upp í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar.

Sýningin samanstendur af skjölum, myndum og ættfræðiupplýsingum og nú gefst tækifæri til að athuga hvort einhver af forfeðrum, formæðrum eða ættingjum er meðal þessara fyrstu kaupstaðarbúa, sem reyndar voru 290 manns. Skjalaverðir aðstoða við leit ættfræðiupplýsinga.

Sóknarmannatal Hrafnagilssóknar 31.12.1862 er lagt til grundvallar í sýningunni, íbúum  á Akureyri eru gerð skil þannig að sérhver maður hvort sem hann er fullorðinn eða barn fær ættfræðilega umfjöllun þar sem tilgreindir eru foreldrar, makar og börn. Uppskrift af manntalinu liggur frammi, í því voru ekki hefðbundin götunöfn og númer, heldur byrjar talningin syðst í bænum á húsi númer 1 og síðan er talið hús úr húsi til norðurs og alls er talið í 41 húsi. Hver fjölskylda í húsi fær bókstaf fyrir aftan númerið, t.d. er í húsi 21a Magnús Jónsson, kona og börn, en í 21b Þorvaldur Gissursson og hans fólk.

Til þess að auðvelda fólki að staðsetja hvar íbúarnir 1862 bjuggu nákvæmlega, því að mörg eða kannski flest upprunalegu húsin eru horfin eða breytt, þá var brugðið á það ráð að setja líka inn núverandi götur og húsnúmer.

Á sýningunni má sjá skjöl sem tengjast fyrstu kaupstaðarbúunum, má þar nefna fæðingarvottorð, ljóðmæli, bréf, fundargerðir, sáttafundarboð, kaupsamninga, handrit að bókum, útgefnar bækur, borgarabréf, boðskort og margt fleira.

Sýningin er í anddyri Héraðsskjalasafns og Amtsbókasafns í Brekkugötu 17 og stendur til 24. september. Opnunartími er kl. 10:00 – 19:00 mánudaga til föstudaga.