Breytingar á bæjarskrifstofum í Samkomuhúsinu

Akureyrarbær keypti Samkomuhúsið af templurum 1917
Akureyrarbær keypti Samkomuhúsið af templurum 1917

Þann 8. nóv. 1951 var í bæjarráði Akureyrar kosin nefnd til að athuga á hvern hátt megi spara í rekstri bæjarins. Þessi athugun var gerð að tilhlutan Félagsmálaráðuneytis á öllu landinu skv. bréfi Steingríms Steinþórssonar dags. 2. nóv. 1951. Sparnaðarnefndin lét m.a. gera teikningar af breytingum á bæjarskrifstofunum og einnig lagði hún til að athugað væri hvort lögreglan gæti tekið að sér að annast manntal fyrir bæinn og halda spjaldskrá um það.
Sparnaðarnefndin lauk störfum á rúmum 5 vikum og skilaði af sér 13 blaðsíðna skýrslu auk fylgiskjala. Farið var all ýtarlega yfir hvernig hugsanlega mætti spara í starfsmannahaldi og rekstri hjá bænum og tillögur gerðar til úrbóta í ýmsum málum. Skýrslu þessa er hægt að skoða á safninu, hún hefur skjalanúmerið A-1/209, dagbnr. 676, árið 1951.
M.a. varð nefndin þess áskynja að ýmiskonar skrifstofuvinna er unnin utan bæjarskrifstofanna með aðkeyptu vinnuafli, sem ekki mun hafa verið hjá komist vegna þrengsla á skrifstofunni. Til úrbóta í þessu máli var Tryggvi Jónatansson byggingafulltrúi fenginn til að mæla upp skrifstofuhúsnæðið sem þá var í Samkomuhúsinu.
Gerði hann tillögur að breytingum á húsnæðinu sem aðeins hafði verið gert ráð fyrir að nota til bráðabirgða og taldi kostnað við þær ekki teljandi í bréfi dags. 26. nóv. 1951. Þar segir Tryggvi m.a.: „Aftur á móti þarf að kaupa 3-4 skrifborð, sem mun kosta ca kr. 12 – 15 þúsund, og yrðu þau að vera svo vönduð að þau gætu komið að fullum notum þegar flutt væri í ný húsakynni, og kemur þá sá kostnaður að fullum notum.“
Teikningu Tryggva Jónatanssonar má sjá hér.