Salbjörg Pálsdóttir og Salbjargarbær

Salbjargarbær var stærri en húsin í kring.  Bærinn var rifinn um 1910.
Salbjargarbær var stærri en húsin í kring. Bærinn var rifinn um 1910.

Þegar Akureyri fékk kaupstaðarréttindin bjó Salbjörg Pálsdóttir í næst innsta húsinu í Fjörunni, ásamt Jóhanni syni sínum.  Húsið var við hana kennt (Salbjargarbær) og var stærra en húsin í kring en íbúarnir voru 12 árið 1862. 

Salbjörg fæddist 3. nóvember 1802.  Foreldrar hennar, Páll Guðmundsson og Ingibjörg Hallgrímsdóttir, bjuggu þá á Þórustöðum í Öngulsstaðahreppi. Salbjörg var í vinnumennsku á Þverá Öngulsstaðahreppi árið 1835, hjá Guðrúnu systur sinni og manni hennar en 1840 var hún komin til Akureyrar, vinnukona hjá Þórunni Nikulásdóttur ekkju.

Í sama húsi bjó Magnús Elíasson snikkari og vann fyrir tveimur systkinum sínum, sem voru á heimilinu. Magnús var fæddur 1801. Eitthvað hefur verið stundað fleira í húsinu en þvottar og smíðar því Salbjörg og Magnús voru gefin saman í hjónaband 20. október 1841 og í janúar árið eftir fæddist dóttir þeirra Margrét Albertína.  Sonurinn Jóhann fæddist árið 1844 og það sama ár fluttist fjölskyldan að Naustum og bjó þar næstu tvö ár en fluttist þá aftur niður fyrir brekkuna.  Ekki er alveg ljóst hvar þau bjuggu fyrst en í árslok 1850 voru þau komin í ,,Salbjargarbæ“.  Magnús lést 9. apríl 1851 en Salbjörg bjó áfram í húsinu ásamt börnunum og hafði tekjur af leigjendum og jarðeplarækt.

Árið 1862 var bú Salbjargar uppskrifað og virt en hún hafði þá setið í óskiptu búi síðan maður hennar lést. Búið samanstóð einungis af 28 liðum og upp var talið:

Húsið, 1 kýr og hryssa. Innanstokks var tunna, tvö kvartél og kaggi, tveir pottar og mjólkurfata. Hirslurnar voru þrjár kistur, ein skráarlaus, rauðmáluð kommóða og skápur, einn stóll og lítið borð. Rúmstæðið var óverulegt, bríkur umhverfis strigaundirdýnu, sængurdýnu, kodda og teppi. Salbjörg átti einnig  lóðavog, stundaklukku, kaffikvörn og járnspaða, sem hún hefur sennilega notað við jarðeplaræktina. (Jón Hjaltason. Saga Akureyrar I s. 177)

Seinustu árin voru Salbjörgu mjög erfið og var hún meira og minna rúmliggjandi.  Hún lést 14. júní 1879.

Niðjatal Salbjargar:

Salbjörg Pálsdóttir, f. 3.11.1802 á Þórustöðum, Eyjaf.  d. 14.6.1879 á Akureyri. For.: Páll Guðmundsson og Ingibjörg Hallgrímsdóttir, Þórustöðum o.v.
~ Magnús Elíasson, f. um 1801 í Ytri-Haga á Árskógsströnd, d. 9.4.1851 á Akureyri, trésmiður á Akureyri. For.: Elías Friðriksson og Sigríður Árnadóttir, Naustum o.v.

Börn þeirra:

a  Margrét Albertína Magnúsdóttir, f. 20.1.1842 á Akureyri, d. 22.11.1909 í Höfn, Bakkafirði, húsfreyja Dalhúsum, Skeggjastaðahreppi, N-Múl.
~Pétur Sigurðsson, f. 18.2.1835 á Vakursstöðum í Vopnafirði, bóndi Dalhúsum.
Börn þeirra:
aa) Jónína, f. 29.5.1866 á Bakka, fór 1892 til Ameríku.
ab) Kristbjörg, f. 3.1.1871 á Dalhúsum, d. 29.3.1939 í Böðvarsdal Vopnafirði, húsfreyja í Böðvarsdal.
ac) Sigurður, f. 31.5.1874 á Dalhúsum, d. um 1905.
ad) Gunnar, f. 30.1.1877 á Dalhúsum, d. 21.2.1882 s.st.
ae) Petrína, f. 19.12.1883 í Höfn Bakkafirði, d. 11.4.1966 s.st., húsfreyja í Höfn Bakkafirði.

b  Jóhann Sófus Magnússon, f. 15.3.1844 á Akureyri, d. 24.5.1876 á Siglufirði, smiður.
- Barnsmóðir Jóhanna Hallgrímsdóttir, f. 18.7.1853 í Hléskógum; S-Þing, d. 10.8.1933 á Akureyri, húsfreyja Akureyri. For.: Hallgrímur Ólafsson og Sigríður Sigurðardóttir, Hléskógum.
Börn þeirra:
ba) Magnús Hálfdán, f. 22.6.1874 á Akureyri, d. 23.5.1875 s.st.
bb) Magnús Hálfdán, f. 5.8.1875 á Akureyri, flutti til Noregs og á þar afkomendur.