Fólkið í kaupstaðnum - Sýningin framlengd

Hús frú Jensen á Oddeyri. Hún sjálf lengst t.h., ásamt afkomendum og ættingjum. Saga Ak. II. s. 281
Hús frú Jensen á Oddeyri. Hún sjálf lengst t.h., ásamt afkomendum og ættingjum. Saga Ak. II. s. 281
Sýningin fólkið í kaupstaðnum hefur nú staðið í tæpan mánuð og hlotið talsverða athygli og hefur því verið ákveðið að framlengja hana út septembermánuð. Á sýningunni er tekið fyrir, eins og áður hefur komið fram, fólkið sem bjó á Akureyri árið 1862, þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindin. Hér að neðan má sjá dæmi um hvernig hver íbúi fær sína umfjöllun, þar sem gerð er grein fyrir ætt og uppruna, hjúskaparstöðu og börnum. Hvert hús fær því e.t.v. mörg svona blöð, allt eftir íbúafjölda hvers fyrir sig.

Í þessu dæmi er fyrst tekinn fyrir Jakob Jensen, danskur verslunarþjónn 25 ára, sem síðar giftist dóttur Jóhanns Haavsten kaupmanns. Jakob dó frá 6 börnum innan við 10 ára aldur, en konan dó ekki ráðalaus og setti á fót bakarí niðri á Oddeyri, með einhverri aðstoð bróður síns Jakobs V. Haavsteen. Bakarí frú Jensen var í timburhúsi sem byggt var á sama stað og áður hafði staðið torfbær, þ.e. á lóðinni sem nú heitir Norðurgata 31.
Næstur er tekinn fyrir Skúli Sveinsson, verslunarþjónn 28 ára. Skúli var Húnvetningur að ætt og uppruna, hann giftist ekki, en eignaðist 2 börn. Fyrra barnið dó 6 vikna, en síðara barnið fæddist eftir að Skúli var farinn úr bænum austur á land árið 1867. Þetta síðara barn var Skúli Skúlason, sem fyrstur Íslendinga fékk styrk til náms í myndlist erlendis.