Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður er látinn

Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður lést sunnudaginn 11. maí 2014. Ólafur fæddist 20. nóvember 1947, sonur Ásgeirs Ólafssonar er var forstjóri Brunabótafélagsins og konu hans Dagmarar Gunnarsdóttur, elstur fjögurra systkina.

Ólafur var cand. mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1971, kenndi svo við Menntaskólann við Hamrahlíð og var skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá árinu 1977 um sjö ára skeið.

Hann var skipaður þjóðskjalavörður frá 1. janúar 1985 og lét af því starfi 1. júní 2012 og er því sá maður sem lengst hefur gegnt því embætti. Í tíð hans sem þjóðskjalavarðar fluttist Þjóðskjalasafn Íslands úr Safnahúsinu í núverandi húsakynni sín að Laugavegi 162. Héraðsskjalasöfnum fjölgaði úr 13 í 20 á þessum tíma.  Ólafur sat í ýmsum nefndum á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) og var heiðursfélagi þess.

Ólafur var kvæntur Vilhelmínu Elsu Johnsen og eignuðust þau þrjú börn.

Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins á Akureyri þakkar fyrir langt og gott samstarf við Ólaf og góð kynni af honum og votta fjölskyldu hans og fyrrum starfsmönnum samúð.

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju föstudaginn 23. maí nk. kl. 15:00.