Ögn af Páli Þorbergi

Páll setti alltaf punkta sitt hvoru megin við strikið í undirskriftinni.
Páll setti alltaf punkta sitt hvoru megin við strikið í undirskriftinni.

Einn af þeim kaupmönnum sem var á Akureyri 1862 var Páll Th. Johnsen eða Páll Þorbergur Jakobsson eins og hann hét á íslensku.

Páll fæddist 25. júlí 1833 í Grenjaðarstaðarsókn.  Hann var sonur Jakobs Johnsen verslunarstjóra á Húsavík og konu hans Hildar Jónsdóttur.  Hann var með foreldrum sínum á Grenjaðarstað á manntali 1835 en síðan bjó hann á Húsavík eða allt til 1856.  Árið eftir var hann kominn til Akureyrar og varð faktor við Gudmannsverslun.  Í september það ár giftist hann Nönnu Soffíu Júlíu, dóttur Eggerts Johnsen héraðslæknis og Önnu Maríu konu hans og 11. apríl 1859 eignuðust þau soninn Eggert. 

Páll keypti hús og verslun af Þorsteini Daníelssyni 1861 en húsin voru u.þ.b. þar sem nú er Hafnarstræti 23 og margir þekkja sem Schiöthshús. 

Í fundargerð bygginganefndarinnar á Akureyri 4. september 1861 segir ,,[nefndin hélt fund] ... eftir beiðni kaupmanns P.Th.Johnsen, að álíta hvort nokkuð geti verið því til fyrirstöðu að hann megi byggja “hestamyllu“ á lóð kaupmanns Tærgesens, vestan við íbúðarhús hans, og gat nefndin þar ekkert haft á mót.“

Í nóvember var mylluhúsið aftur á borðum bygginganefndar því ,,að kaupmaður P.Th. Johnsen haf[ð]i að henni forspurðri flutt mylluhús sitt af lóð Tærgesens út á sína eigin lóð og sett það niður um 20 álnum norðan við krambúðarhús sitt.  Byggingarnefndin sér ekkert á móti því að mylluhúsið standi á þessum stað en álítur samt að kaupmaður Johnsen hafi verðskuldað sekt fyrir að hafa af þrjózku flutt húsið áður en hann hafði fengið leyfi nefndarinnar.“

Myllan kom svo sumarið eftir (1862).  Henni er lýst svo í Norðanfara: ,,Mylluvél þessi er mest af járni og mjög ramgjör.  Fjórir hestar ganga fyrir henni þá malað er.  Þegar allt er í lagi og ekkert tálmar áframhaldi hennar, er sagt hún mali korntunnuna á fjórðungi stundar, en tvímala þarf ef mjölið á að vera smátt.  Henni er fremur svo til hagað, að hún getur snúið hverfisteini, spunnið hamp eða lín og snúið strengi, sagað tré og flett borðum.  En hvert þetta þarf sérstaka tilhögun og kostnað, einkum sögunin, sem hinn mikli framkvæmdamaður fyrirtækis þessar ætlar að koma í gang með tímanum.“

Framkvæmdamaðurinn Páll lagði sporbraut upp bryggju sína og inn í geymsluhús, fyrstur akureyrskra kaupmanna og 1865 gekkst hann, ásamt Stefáni Thorarensen sýslumanni, fyrir því að Glerá var brúuð í fyrsta sinn.  Það var fleira sem Páll tók sér fyrir hendur því árið 1863 byggði hann nokkurs konar kvist eða viðauka austur úr íbúðarhúsinu og varð eitt helsta sérkenni hússins upp frá því.

Verslunarferli Páls lauk 1867 er hann var gjaldþrota og Carl Höepfner keypti eignir hans og stofnaði þar fyrstu brauðgerðina á Akureyri.

Auk kaupmennskunar gegndi Páll nokkrum trúnaðarstörfum fyrir Akureyringa.  Hann var í kjörstjórninni þegar Akureyringar kusu sína fyrstu bæjarstjórn 31. mars 1863.  Páll var í bæjarstjórn 1863-1865 og hafnarnefnd og byggingarnefnd 1863.

Páll lést á Akureyri 27. maí 1881.