Matreiðslunámskeið fyrir 100 árum

Jóninna Sigurðardóttir (1879-1962) kenndi í matreiðsluskólanum í Caroline Rest
Jóninna Sigurðardóttir (1879-1962) kenndi í matreiðsluskólanum í Caroline Rest

 

Myndin hér fyrir neðan er á póstkorti útgefnu af Jóhanni Ragúelssyni á Akureyri og sýnir eins og stendur í texta: Cookery School at „Caroline Rest“ Akureyri. Póstkortið fylgdi einkaskjalasafni sem verið var að ganga frá til geymslu fyrir skemmstu.

George Schrader var auðugur þýskur maður, búsettur í Bandaríkjunum. Hann varði auði sínum til líknarmála og var sérstakur velgjörðarmaður Akureyringa. Eitt af því sem hann tók sér fyrir hendur var að koma á fót matreiðslunámskeiði fyrir ungar stúlkur í Caroline Rest, gistihúsi því sem hann hafði látið byggja fyrir hesta og reiðmenn sem til bæjarins komu. (Sjá Steindór Steindórsson: Akureyri: Höfuðborg hins bjarta norðurs. 1993).

 Veturinn 1913-1914 fengu sextíu stúlkur ókeypis kennslu á hans kostnað. Hann fékk til liðs við sig til að kenna matreiðsluna hinn rómaða húsmæðrakennara Jóninnu Sigurðardóttur frá Draflastöðum sem síðar var hóteleigandi og hótelstjóri Hótels Goðafoss í Hafnarstræti 95.  Eftir að námskeiðinu lauk hvatti George Jóninnu til að gefa út bók með uppskriftum sínum sem hún hafði notast við á námskeiðinu og studdi hana fjárhagslega til þess.  Bókin kom út árið 1915 og heitir Matreiðslubók fyrir fátæka og ríka. Bókin skiptist í almennan mat, sunnudagsmat, tækifærisrétti, íslenska matargerð (s.s. sláturgerð og kæfulögun) og smárétti. Að lokum er sagt frá samsetningu matseðla, hvernig dúka skal borð og almennum borðsiðum.

Ef einhver veit nöfnin á stúlkunum á myndinni þá eru þær upplýsingar vel þegnar í síma 4601290 eða netfangið herak@herak.is.