Lúðrasveit Akureyrar stofnuð fyrir 70 árum, þann 25. okt. 1942.

Í gögnum Lúðrasveitar Akureyrar í Héraðsskjalasafninu á Akureyri má m.a. finna stofnfundargerð frá 25. október 1942. Fundargerðin er líklega uppkast, en eiginleg fundargerðabók hefur ekki enn skilað sér til safnsins. Vonandi er hún vel geymd einhvers staðar og á eftir að sameinast öðrum gögnum Lúðrasveitar Akureyrar hér á safninu. Í stofnfundargerðina er þetta skráð:

"Sunnudaginn 25. okt 1942 komu nokkrir menn saman á fund í kapellu Akureyrarkirkju til að ræða um stofnun lúðrasveitar. Fundinn setti Finnbogi Jónsson og stjórnaði honum.
Til máls tóku Finnbogi Jónsson, Vigfús Jónsson og Stefán Ág. Kristjánsson.
Eftir nokkrar umræður var samþykkt með öllum greiddum atkv. að stofna lúðrasveitina sem formlegt félag.
Stofnendur voru:
F.J., Ó.T.Ó., V.J., St.Á.K., J.Sig., J.Em., E.Har., J.T., G.Sig., St.Þ., E.J., S.H.
Kosin var nefnd til að semja uppkast að lögum fyrir félagið. Í nefndina voru kosnir: Finnbogi Jónsson, Stefán Ág. Kristjánsson, Jakob Tryggvason.
Rætt um æfingatíma ...  Fleira ekki gert, fundi slitið."

Full nöfn ofangreindra stofnenda:
Finnbogi Jónsson, póstmaður, Ólafur Tryggvi Ólafsson kjötbúðarstjóri, Vigfús Jónsson málari, Stefán Ágúst Kristjánsson forstjóri Sjúkrasamlags Akureyrar og Borgarbíós, Jón Sigurðsson trompetleikari, Jakob Emilsson prentari, Eiður Haraldsson skósmiður, Jakob Tryggvason organisti, síðar stjórnandi, Geir Sigurðsson Björnsson síðar prentsmiðjustjóri POB, Steingrímur Þorsteinsson afgreiðslumaður, Egill Jónsson rakari, Sigtryggur J. Helgason gullsmiður.

Hér má sjá nokkrar myndar af Lúðrasveit Akureyrar frá árunum 1946-2000