Lárus Rist og Sundfélagið Óðinn

Lárus Rist ferðbúinn til sunds yfir Eyjafjörð 6. ágúst 1907
Lárus Rist ferðbúinn til sunds yfir Eyjafjörð 6. ágúst 1907

Nýlega var lokið við að skrá einkaskjalasafn Lárusar Jóhannssonar Rist.  Hann fæddist árið 1879 að Seljadal í Kjós en fluttist norður í Eyjafjörð og ólst þar upp.  Eftir fimleika- og sundkennaranám í Danmörku settist Lárus að á Akureyri og fór að kenna við Gagnfræðaskólann.  Hann kom með nýja strauma í íþróttalíf Akureyringa og ekki hvað síst sundíþróttina. 

Veturinn 1907 strengdi Lárus þess heit að synda yfir Eyjafjörð alkæddur, í sjófötum og í sjóstígvélum.  Hann lét verða af því um sumarið (6. ágúst).

,,Hljóp hann út af Oddeyrartanganum í öllum þeim klæðum, er að ofan greinir og synti frá landi allmarga faðma; kastaði hann þá af sér klæðunum, og er það allra manna mál, er sáu að það hafi hann gert með frábærum fimleik;...Eigi kemur mönnum ... saman um, hve lengi hann hafi verið að synda yfir fjörðinn, en Steingrímur læknir Matthíasson, er fylgdi honum í bát yfir fjörðinn, hefir sagt oss, að það hafi numið 36 mínútum.  Sumir segja 33.“ (Norðri 9.8.1907)

Fyrr um sumarið synti Karl Hansson yfir fjörðinn.  Hann var snikkari, austfirskur að ætt og uppruna.

Eftir að Lárus kom til bæjarins og kenndi Akureyringum að synda var farið að keppa í sundi.  Kepptu menn þá undir merkjum Íþróttafélagsins Grettis og annara félaga.  Sundfélagið Grettir var stofnað 1937 og stóð að nokkrum mótum en þegar Sundmeistaramót Norðurlands var haldið í sundlaug bæjarins á 100 ára afmælinu sá SRA (Sundráð Akureyrar) um mótið.   Á mótinu mættu keppendur frá fjórum félögum og héraðssamböndum þ.e. Ungmennasambandi Vestur-Húnavatnssýslu, Ungmennasambandi Skagafjarðar, Héraðssambandi Þingeyinga og Sundfélaginu Óðni.  Sundfélagið Óðinn var stofnað á árinu 1962 og á því 50 ára afmæli á þessu ári.