Kristján frá Djúpalæk

Kristján Einarsson árið 1948
Kristján Einarsson árið 1948

Kristján var fæddur árið 1916 að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi.  Sem barn og unglingur sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum. Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri.

Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist og bjó með til dauðadags.

Unnur og Kristján hófu búskap í Staðartungu árið 1938. Kristján þótti ekki sérstaklega hneigður til búskapar enda brugðu þau hjónin búi árið 1943 og fluttu í Gránufélagsgötu 55 á Akureyri,  þar sem þau bjuggu næstu sex árin, en síðan í Byggðaveg 107.  Á þeim tíma vann Kristján aðallega verksmiðjuvinnu sem honum leiddist og hann þoldi illa. Hann fékk útrás við ljóðagerð og varð kunnur af henni og gerðist virkur verkalýðssinni.  

Í lok árs 1949 fluttu Kristján og Unnur til Hveragerðis sem þá var listamannamiðstöð Íslands. Þar bjuggu þau í húsi sem kallað var Bræðraborg eða Frumskógar 6.

Um þetta leyti var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og varð eftir því sem árin liðu æ þekktari.  En frægðin dugði ekki til, það vantaði salt í grautinn eins og hjá fleiri listamönnum. Hann þurfti fyrir fjölskyldu að sjá og því tók hann að sér ýmsa vinnu. Hann var barnakennari í Hveragerði og Þorlákshöfn, og vann einnig við garðyrkjustörf, húsamálun og ýmislegt fleira.
 
TALAÐ VIÐ HRAFN

Utan úr mjallhvítri auðn
árdegis kemur þú, skuggi dökkur,
flöktir með húsum um hlöð,
hverfur á brott undir rökkur.

Nákominn mönnum, alla þó einhvers dylur.
Enginn í hug þér veit eða söng þinn skilur.

Ótta þú vaktir hjátrúarfullum heimi.
Hvar sem dauði fór yfir varst þú á sveimi.

Hvort ert þú holdtekin vá eða varnaðarboði,
vanmáttur guðs eða styrkur?

Hvort ert þú svartur fugl
eða fljúgandi myrkur?

Árið 1961 fluttu hjónin ásamt syni sínum til Akureyrar og bjuggu til að byrja með í Hólabraut 20 en frá 1965 í Skarðshlíð 19.  Árið 1980 fluttu þau í Arnarsíðu 8a og bjuggu þar þegar Kristján lést árið 1994.

Í nokkur ár var Kristján ritstjóri dagblaðsins Verkamannsins ásamt því að kenna við skóla á Akureyri og sinna ýmsum íhlaupastörfum auk vinnu við ritsmíðar sínar. Nokkur sumur sinnti hann veiðieftirliti með ám í Eyjafirði, Fnjóská, Hörgá og Eyjafjarðará.

Nokkuð er varðveitt af handritum og öðrum skjölum frá Kristjáni á Hérðasskjalasafninu og hér er að finna yfirlit yfir það.

Hér að neðan má sjá handrit Kristjáns og hugleiðingar hans um ljóðið Mitt faðirvor.