Kosningaréttur kvenna 99 ára - Kvennasöguganga um Oddeyrina

Kristín Eggertsdóttir, fyrst kvenna í bæjarstjórn Akureyrar árið 1911
Kristín Eggertsdóttir, fyrst kvenna í bæjarstjórn Akureyrar árið 1911
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Árið 1882 höfðu konur fengið takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakosninga sem síðan var víkkaður út til jafns við karla árið 1908.
Á Akureyri gerðist það þó að kona kaus til bæjarstjórnar árið 1863.

Fyrir misskilning eða skort á tungumálakunnáttu kaus Vilhelmína Lever þegar Akureyringar kusu sína fyrstu bæjarstjórn.


Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi 1862 og skv. nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Skv. reglugerðinni höfðu kosningarétt allir fullmyndugir menn („alle fuldmyndige Mænd”), sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borguðu a.m.k. 2 ríkisdali í bæjargjöld. Vilhelmína féll undir öll þessi ákvæði og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Aftur kaus hún svo til bæjarstjórnar 3. jan. 1866.   Í danska textanum átti orðið „Mænd” örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð  „menn” en ekki  „karlar” fékk Vilhelmína að kjósa.

Í tilefni kvenréttindadagsins í dag þann 19. júní verður boðið upp á kvennasögugöngu um Oddeyrina á Akureyri og kvikmyndasýningu í Sambíó.  Guðfinna Hallgrímsdóttir og Hallgrímur Skaptason munu leiða gönguna og varpa ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni. Kvennasögugangan hefst við Ráðhústorg kl. 16:20 og lýkur við Gamla Lund. Gangan er öllum opin en hún er í boði Jafnréttisstofu, Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, Minjasafnsins á Akureyri, Zontakvenna og Akureyrarbæjar.
Að göngu lokinni, kl. 18:00 er göngufólki boðið upp á sýningu í Sambíói á sænsku verðlaunamyndin Monika Z.