Jóhannes Örn Jónsson (1892-1960)

Örn á Steðja þótti rita gott og hreint mál
Örn á Steðja þótti rita gott og hreint mál

Hingað barst merkileg afhending fyrir skemmstu en það eru handrit Jóhannesar Arnar Jónssonar bónda og rithöfundar á Steðja. Jóhannes Örn var fæddur að Árnesi í Tungusveit og ólst þar upp. Hann naut almennrar barnafræðslu í uppvextinum en af sjálfsdáðum aflaði hann sér margs konar fróðleiks. Hann var snemma vel skáldmæltur og orti mikið af kvæðum og stökum og fékkst einnig við þýðingar. Mörg ljóða hans birtust í blöðum og tímaritum.

Ungur hóf hann söfnun á þjóðsögum og öðrum þjóðlegum fróðleik og vann að því alla ævi. Jóhannes Örn var þekktur sem Örn á Steðja og notaði hann það höfundarnafn en einnig höfundarnafnið Svartur Húni Jökulsson. Helstu rit hans voru: Burknar, ljóðmæli (1922), Dulsjá, sagnir víðsvega (1937), Sagnablöð (1948) og Sagnablöð hin nýju (1956). Auk þess átti hann í handriti nokkurt safn þjóðsagna og annars fróðleiks sem var að mestu frágengið til prentunar þegar hann lést.

Jóhannes Örn kvæntist Sigríði Ágústsdóttur og bjuggu þau í Fagranesi í Öxnadal 1930-34, Neðstalandi í Öxnadal 1934-35 og á Steðja á Þelamörk 1935-60 en fluttu þá til Akureyrar.

Nokkrar vísur Arnar á Steðja (úr afhendingu 2018/32):

Í ræðnalok á eldhússdegi alþ. 1953

Úti er þetta orðahret.
Oft var brotinn vigur.
Allir þóttust eiga met.
Enginn vann þó sigur.

Æskulýðshöllin

Reykjavíkur ráðin öll
refilstigu kanna
ef þau byggja æskuhöll
iðjulausra manna.

Eyðibýli

Hér við Íslands eyðiból
endar þrautasaga.
Enn þó skín þar sama sól,
sem í fyrri daga.

Til Gunnars Salómonssonar

Ég þig beygja járnstöng sá,
jötunn hreystiverka.
Endurfæddan þóttist þá
þekkja Gretti sterka.