Hitaveita Akureyrar

Úr fundargerð hitaveitunefndar 21.12.1939.  Steindór Steindósson skrifar fundargerðina
Úr fundargerð hitaveitunefndar 21.12.1939. Steindór Steindósson skrifar fundargerðina

Hitaveita Akureyrar var stofnuð árið 1977 en í nóvember það ár var heitu vatni hleypt á fyrsta húsið með formlegum hætti.  Húsið var Dvalarheimilið Hlíð.  Áhugi á að nýta jarðhita til húshitunar á Akureyri var alls ekki nýr en árið 1939 var skipuð nefnd til að veita forstöðu nauðsynlegum rannsóknum til undirbúning hitaveitu.  Nefndin starfaði til 1944 ef marka má fundargerðabókina.

Áhugi manna beindist fyrst í stað að þremur laugasvæðum, þ.e. í Glerárgili, við Reykhús í Eyjafirði og á Laugalandi á Þelamörk en á þessum stöðum var borað þegar árið 1940. Árið 1944 var einnig borað í Kristnesi og aftur 1947. Sama ár var borað að Reykhúsum og Laugalandi í Öngulstaðarhreppi. Árangur þessa var ekki það góður að það borgaði sig að leiða vatnið til Akureyrar. Aftur var reynt við boranir árin 1964 og 1970 og enn var árangur ekki nægjanlegur og dofnuðu því vonir Akureyringa.

Eftir að olíuverð hækkaði skyndilega síðla árs 1973 breyttust viðhorf til húshitunar verulega og ástæða þótti til að skoða hitaveitumöguleikana betur.   Árið 1975 voru því hafnar frekari rannsóknir, einkum á Syðra Laugalandi og þar boraðar holur og árangurinn reyndist það góður að Akureyringar fengu hitaveitu.

Um aðdragandann að stofnun Hitaveitu Akureyar má lesa meira í grein Gunnars Sverrissonar sem birtist í Timariti VFÍ 1979, sem og á heimasíðu Norðurorku.