Handrit úr fórum Sigurðar Guðjónssonar, bæjarfógeta á Ólafsfirði

Aðalbjörg Sigmarsdóttir og Agla Sigurðardóttir
Aðalbjörg Sigmarsdóttir og Agla Sigurðardóttir

Í dag afhenti Agla Sigurðardóttir, kennari og tölvunarfræðingur á Akureyri, safninu handrit úr fórum föður síns, Sigurðar Guðjónssonar, bæjarfógeta á Ólafsfirði.

Meðal efnis í handritunum eru  ritgerðir um Kolbein Grön eða Kolbein unga, um kjördæmaskipan og golf. Einnig hátíða- og tækifærisræður, t.d. við forsetaheimsókn 1969, á 17. júní hátíðahöldum, hjá Rotaryklúbbnum og framboðsræður til alþingis og bæjarstjórnar.

Agla hefur í tilefni af 100 ára ártíð Sigurðar gefið handritin út á bók sem heitir Rit úr fórum föður míns. Þar hefur hún bætt tilvitnunum og skýringum við frumtextana og einnig sett inn myndir með textum, myndaskrá og nafnaskrá. Bókina afhenti hún safninu einnig ásamt skönnuðu eintaki af handritunum á tölvudiski og fær hún hinar bestu þakkir fyrir.