Guðmundur Frímann, skáld og rithöfundur

Málverk Kristins G. Jóhannssonar af Guðmundi Frímann
Málverk Kristins G. Jóhannssonar af Guðmundi Frímann

Á næstu vikum verður hér minnst nokkurra „Akureyrarskálda“, gerð grein fyrir búsetu þeirra á Akureyri og skjölum þeirra í Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Ekki verða hér tekin fyrir æviatriði né ritverk, því um það má lesa víða annars staðar.

Guðmundur Frímann Frímannsson kom 22 ára til Akureyrar. Hann hóf nám í húsgagnasmíði  og bjó hjá meistara sínum, Ólafi Ágústssyni, í Strandgötu 33. Síðar bjó hann í Iðnskólanum, Lundargötu 12, en árið 1930 var hann kominn í Munkaþverárstræti 13, með stöðuheitið húsgagnasmiður og væntanlegur tengdasonur húsbænda. Húsbændurnir voru Jónas Hallgrímsson beykir og skipstjóri og Valgerður Alberts-dóttir og dóttirin Ragna Sigurlín Jónasdóttir. Þau voru gefin saman í hjónaband 13. des. 1930 og bjuggu áfram í Munkaþverárstræti 13 allt til ársins 1939 er þau fluttust, ásamt dótturinn Valgerði, í Reykholt í Borgarfirði. Til baka komu þau 1942 og bjuggu til að byrja með í Munkaþverárstræti 13.
Snemma árs 1946 fékk Gumundur lóðina ,,vestan Þórunnarstrætis, norðan Hamarstígs“ og byggði í framhaldinu hús á lóðinni.  Húsið fékk númerið Hamarstígur 14 en þangað var fjölskyldan flutt síðla árs 1946. Dæturnar Gunnhildur og Hrefna fæddust eftir að þangað var komið.  Guðmundur bjó í Hamarstíg 14 allt til þess er hann fór á Dvalarheimilið Hlíð, skömmu áður en hann lést árið 1989.
                          Úr ódagsettu bréfi Guðmundar Frímann til vinar.

 

 

 

                        
Guðmundur Frímann safnaði bókmerkjum (ex libris merkjum), en þau notuðu menn til að merkja sér bækur sínar. Hér má sjá merki Guðmundar, sem hann hannaði og teiknaði sjálfur. Merkjasafnið er varðveitt á Héraðsskjalasafninu ásamt handritum og fleiri gögnum Guðmundar, skrá yfir þau má sjáhér.