Ertu Akureyringur?

Málverk Elísabetar Geirmundsdóttur af Sibbukofa.  Húsið stóð fram á miðja 20. öld.
Málverk Elísabetar Geirmundsdóttur af Sibbukofa. Húsið stóð fram á miðja 20. öld.

Meðal efnis sem barst á safnið árið 2011 var erfiljóð ort af Matthíasi Jochumssyni.  Upphafið er svona:

Sigurbjörg Gunnarsdóttir
fædd 1820, dáin 1901
(undir nafni dóttur hennar)

Seinn er sólargangur
seinni nóttin þó,
síðan, móðir milda,
myrkvann yfir dró.
Ein og hrelld ég hými,
heimsins fjarri glaum,
ein með hryggð og angur,
ein með lífs míns draum.

Sigurbjörg Gunnarsdóttir fæddist árið 1820 á Grund í Höfðahverfi og giftist þar, Jóni Tómassyni, árið 1848.  Jón var árinu yngri en Sigurbjörg, fæddur 1821 í Grenjaðarstaðarsókn.  Hann kom sem vinnumaður á Grund árið 1843 en fór 1844 til Kaupmannahafnar til að læra smíðar. Eftir giftinguna ,,settu þau sig niður“ á Akureyri og bjuggu lengst af í Syðstahúsi (Aðalstræti 82). Börn þeirra voru: Sigurjóna Ólöf f. 1849, Stefán Júlíus f. 1852, Hansína Júlíana f. 1854, Loftur Júlíus f. 1856, Júlíana Sigurjóna f. 1858, Júlíana Þorgerður f. 1860 og Sigurbjörg f. 1862.

Sigurjóna Ólöf lifði ekki nema fáeina daga en þau Stefán Júlíus, Hansína Júlíana, Loftur Júlíus og Júlíana Þorgerður dóu öll í apríl og maí árið 1861.  Heimildir eru fáorðar um dánarmein barnanna en vitað er að barnaveiki geisaði á þessum tíma.  Það voru því ekki nema Júlíana Sigurjóna og Sigurbjörg sem komust til fullorðinsára.

Jón Tómasson snikkari lést í júní 1881 og í október þetta saman ár drukknaði Júlíana Sigurjóna við Hrísey.  Þær mæðgur Sigurbjörg Gunnarsdóttir og Sigurbjörg Jónsdóttir voru þá einar eftir í Syðstahúsi eða Sibbukofa eins og húsið var stundum kallað.  Sigurbjörg Jónsdóttir eignaðist Jón Júlíus árið 1902 en faðir hans var Sigurður Jónsson.  Jón Júlíus fluttist til Vesturheims árið 1929.

Fjölskyldusaga þeirra Sigurbjargar Gunnarsdóttur og Jóns Tómassonar er vissulega sorgarsaga og því miður ekki eina dæmið meðal íslenskra fjölskyldna.  Þótt enginn núlifandi Akureyringur geti rakið ættir sínar til þessara hjóna er eins víst að einhverjir geta rakið sig til fólks sem bjó á Akureyri árið 1862.  Seinna á þessu afmælisári verður skjalasafnið með sýningu um fólkið sem bjó á Akureyri fyrir 150 árum.  Dregin verða fram skjöl og önnur gögn tengd fólkinu og jafnframt fá gestir aðstoð við að kanna ættartengsl sín við Akureyringa 1862.  Sóknarmannatalið frá því ári er hér.