Aftur til fortíðar, kaupstaðurinn Akureyri árið 1862 endurskapaður

Hér er ljósmynd frá 1873 notuð til að draga upp umfang húsa sem stóðu þarna 1862 en eru núna flest h…
Hér er ljósmynd frá 1873 notuð til að draga upp umfang húsa sem stóðu þarna 1862 en eru núna flest horfinn á braut

Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar er í gangi verkefni sem snýr að því að endurskapa þéttbýlisstaðinn eins og hann leit út 29. ágúst 1862. Um er að ræða samvinnuverkefni Arnars Birgis Ólafssonar landslagsarkitekts og Brynjars Karls Óttarssonar sem heldur úti Grenndargralinu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Akureyrarkaupstað en Minjasafnið á Akureyri og Héraðsskjalasafnið á Akureyri hafa aðstoðað við heimildaleit.

Markmiðið með verkefninu er að kynna sögu og menningu heimabyggðar á lifandi hátt þar sem áhugasamir fá tækifæri til að upplifað fortíðina á eigin forsendum. 

Til að endurskapa gamla kaupstaðinn eru notuð öflug tölvuforrit og bestu heimildir sem völ er á.  Til að byrja með voru notaðar loftmyndir, hæðarlínur og gps staðsetningar núverandi húsa sem voru byggð fyrir 1862. Þegar þessum heimildum þraut var notast við eldri loftmyndir, gömul kort, teikningar, málverk og ljósmyndir. Einnig hefur dágóður tími farið í yfirlegu skriflegra heimilda, s.s. sögubóka, húsakannanna og gamalla fundargerða bygginganefndar og bæjarstjórnar frá 19. öld.

Þessi vinna hefur verið sannkallað púsluspil sem hægt og rólega hefur tekið á sig betri og nákvæmari mynd.  Í upphafi vinnunnar var gert ráð fyrir að skálda þyrfti í fjölmargar eyður þar sem ekki væru til heimildir, en svo varð ekki raunin. Til eru einhverjar upplýsingar um flest húsin á svæðinu og íbúa þess árið 1862, en þessar upplýsingar leynast að sjálfsögðu nokkuð víða.

Afrakstur verkefnisins verður til að byrja með yfirlitsmynd af gömlu Akureyri sem við teiknum upp og birtum sem veggmynd. Þar verður hægt að lesa litla fróðleiksmola um húsin í bænum og íbúa þess árið sem þéttbýlisstaðurinn varð löggiltur kaupstaður.

Næsta birtingarform verkefnisins verður í formi stuttrar heimildarmyndar en síðan stendur til að smíða margmiðlunarefni og sýndarveruleika þar sem hægt verður að ganga eftir götunum, gægjast inn um glugga, spjalla við bæjarbúa og upplifa Akureyri árið 1862 eins og hver annar ferðamaður þess tíma.

Textinn er frá Arnari Birgi Ólafssyni.