Aðbúnaður skólabarna á Oddeyrinni

Í Norðurgötu 17 var barnaskóli fyrir Oddeyringa 1898
Í Norðurgötu 17 var barnaskóli fyrir Oddeyringa 1898

Haustið 1882 var í fyrsta skipti hafin barnakennsla á vegum bæjarins á Oddeyri. Barnaskóli Akureyrar  hafði þá verið starfræktur frá haustinu 1871, en vegna óánægjuradda Oddeyrarbúa var nú svolitlum fjármunum varið til barnakennslu á Oddeyri.
Skólinn var þó stopull fyrstu árin, kennaraskipti voru tíð, stöðugt húsnæðishrak og húsnæðið oft ískalt og óboðlegt,     

sbr. umsögn Jónasar Stefánssonar í bókinni Frá Kotá til Kanada, en þá var skólinn í litlu húsi þar sem nú er Strandgata 11: „Þegar börnin höfðu lokið við að syngja fyrsta versið af sálminum Ó Jesú bróðir besti, en með honum byrjaði skólastarfið venjulega á morgnana, settust þau niður við púltin og væri kalt úti leið ekki á löngu þar til tennurnar byrjuðu að glamra í munni þeirra. Og svo var kalt í herberginu að væru blekbyttur skildar þar eftir í kuldatíð fraus í þeim.“

Haustið 1898 hugðist bæjarstjórn leigja stofu í steinhúsi Björns Jónssonar, lögregluþjóns og prentara í Norðurgötu 17, en þá mótmæltu nokkrir feður þeirri fyrirætlan og sögðu heilsu barnanna stefnt í voða. Fengu þeir héraðslækni Guðmund Hannesson til að skoða húsnæðið og samdi hann ófagra lýsingu af því: „Stofan í húsi Bjarnar Jónssonar er illa til skólastofu fallin. Birtan er dauf, loptskipti lítið gegnum þjetta steinveggi ventilalausa. Rúm er þar eigi meira en fyrir 20 börn og þó fullsett á. Húsið sem stofa þessi er í má telja meðal hinna lökustu í bænum frá heilbrigðilegu sjónarmiði.“

Þrátt fyrir að góð stofa byðist í húsi Snorra Jónssonar í Strandgötu 31 ákvað bæjarstjórn að hundsa vilja Oddeyringa, Björn bauð nefnilega lægra verð en Snorri. Jakob V. Havsteen kaupmaður tók þá Jóhann son sinn úr skólanum „... og vil ekki stofna heilsu drengsins í hættu“. segir í bréfi Jakobs til Björns Björnssonar kennara.


5. október 1898 auglýsir skólanefndin setningu skólans og þar með að öll börn sem séu sæmilega lesandi fái inngöngu.Fleiri börn mættu síðan í skólann heldur en höfðu mætt á setninguna, þau voru þá  boðuð í lestrarpróf til að athuga hvort þau stæðust kröfur skólanefndar.