1. júlí 1969 veitti þjóðskjalavörður, Bjarni Vilhjálmsson, Héraðsskjalasafni Akureyrarkaupstaðar og Eyjafjarðarsýslu viðurkenningu sína, sem löglega stofnuðu héraðsskjalasafni samkvæmt ákvæðum laga frá 12. febrúar 1947 um héraðsskjalasöfn og reglugerðar um héraðsskjalasöfn frá 5. maí 1951.
Undirbúningur að stofnun safnsins hafði staðið frá 1967 en 17. maí þ.á. var samþykkt í bókasafnsnefnd Amtsbókasafns að stofna héraðsskjalasafn fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu, sem deild í Amtsbókasafninu. Þjóðskjalavörður gat ekki samþykkt þá tilhögun enda á skjön við áðurnefnd lög og því var niðurstaðan að stofna sérstakt safn þar sem yfirstjórn þess skiptist milli bæjarstjórnar og sýslunefndar annars vegar og þjóðskjalavarðar og menntamálaráðuneytis hins vegar. Rekstur safnsins skyldi vera á ábyrgð bæjarstjórnar en faglegt starf undir stjórn þjóðskjalavarðar og menntamálaráðuneytis.
Þó svo að Héraðsskjalasafnið hafi formlega verið stofnað 1. júlí 1969 hafði skjalavörður unnið að undirbúningi þess frá því á árinu 1967 og verið í hálfu starfi frá ársbyrjun 1968. Það var Árni Kristjánsson (1915-1974) og gegndi hann starfinu til d.d.
Haldið verður upp á 50 ára afmæli safnsins mánudaginn 1. júlí kl. 16.00 á fyrstu hæðinni í Brekkugötu 17. Flutt verða stutt erindi og boðið upp á kaffi. Allir velkomnir.