Norræni skjaladagurinn 2012 var haldinn 10. nóvember og var helgaður ungmennafélögum í víðasta skilningi. Mátti það teljast heppilegt viðfangsefni því flest héraðsskjalasöfn varðveita slík gögn.
Um og upp úr aldamótunum 1900 fór almenn félagsstarfssemi mjög vaxandi í landinu, búnaðarfélög og lestrarfélög urðu víða til á síðari hluta 19. aldar en nú bættust við kvenfélög, sóknarnefndir, bindindisfélög og ekki síst ungmennafélög sem komu „til sögunnar eins og vorregn á skrælnaða jörð. Unga fólkið tók þeim fagnandi og leiddi þau til öndvegis um landið allt“ (Jón M. Ívarsson: Vormenn Íslands, bls. 22).
Fyrsta ungmennafélagið, sem bar það heiti, var stofnað á Akureyri 7. janúar 1906 og nefndist Ungmennafélag Akureyrar. Frumkvöðlar þess voru Þórhallur Bjarnason prentari og Jóhannes Jósefsson glímukappi en þeir höfðu kynnst félagsskap ungs fólks í Noregi og Danmörku á námsárum sínum ytra. Landsmót, sem kalla má uppskeruhátíðir ungmennahreyfingarinnar voru fyrst haldin á Akureyri þann 17. júní 1909.
Á vef skjaladagsins fyrir árið 2012 eru tveir pistlar sem Héraðsskjalasafnið á Akureyri lagði til „Andrésar andar leikarnir á Akureyri“ og „Æskulýðsstarf hjá Hestamannafélaginu Létti“ en engin sýning var haldin í tilefni af skjaladeginum þetta árið.
Hér má sjá pistilinn „Andrésar andar leikarnir á Akureyri“
Hér má sjá pistilinn „Æskulýðsstarf hjá Hestamannafélaginu Létti“