Leiklist á Akureyri

 

Sýningin Leiklist á Akureyri var opnuð 2. febrúar og stóð til 9. mars.  Tilefni sýningarinnar var aldarafmæli Samkomuhússins árið á undan og níræðisafmæli Leikfélagsins á sama ári.  Á sýningunni var gefið yfirlit í máli og myndum yfir leikstarfsemi á Akureyri frá því þar var fyrst leikið árið 1860 til dagsins í dag. Sagt var frá fyrstu tilraunum áhugamanna, þegar leikið var nánast jöfnum höndum á dönsku og íslensku, og því hvernig íslenskan vann á jafnt og þétt með leikritum skálda eins og Matthíasar Jochumssonar, Páls J. Árdals, Ara Jónssonar, Tómasar Jónssonar o.fl. Með tilkomu Samkomuhússins árið 1907 batnaði öll aðstaða til leiksýninga til mikilla muna og smám saman komst aukin festa á leikstarfið, einkum eftir stofnun Leikfélags Akureyrar árið 1917, en það hefur starfað óslitið síðan.

Myndefni frá sýningum auk frásagna frá helstu burðarásum leikstarfsins var til sýnis.  Þá voru nokkur sýnishorn af leikmunum og búningum frá L.A. og á myndskjá voru sýnd brot úr gömlum upptökum frá sýningum félagsins.

Leikminjasafn Íslands stóð að sýningunni ásamt Amtsbókasafninu og Héraðsskjalasafninu. Textahöfundar voru Sveinn Einarsson, Jón Viðar Jónsson og Ólafur Engilbertsson, hönnun sýningarinnar var í höndum Ólafs Engilbertssonar, Björns G. Björnssonar og Jóns Þórissonar. Sérstakur ráðgjafi sýningarinnar var Haraldur Sigurðsson.

Hér má sjá fleiri myndir frá sýningunni

Til baka