Vígsla Elliheimilis Akureyrar og kvenfélagið Framtíðin

Jón G. Sólnes og forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, ganga inn í hús elliheimilisins á vígsludegi
Jón G. Sólnes og forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, ganga inn í hús elliheimilisins á vígsludegi

Meðal dagskrárliða 100 ára hátíðarhaldanna var vígsla Elliheimilis Akureyrar.  Athöfnin var fyrsta atriðið á afmælisdaginn og hófst á vígsluræðu Magnús E. Guðjónssonar bæjarstjóra.  Að henni lokinni kvaddi Ingibjörg Haraldsdóttir formaður kvenfélagins Framtíðin sér hljóðs og sagði:

Herra forseti Íslands, háttvirta samkoma

Í dag er hátíð í hugum Akureyringa, bæði nærverandi og fjærstaddra, eldri og yngri, er við minnumst þess að 100 ár eru liðin síðan bærinn okkar fagri fékk kaupstaðarréttindi.

Við konur í kvenfélaginu Framtíðin höfum sérstaklega ástæðu til að fagna í dag, því nú er að rætast margra ára vonardraumur félagskvenna, er hér verður vígt Elliheimili Akureyrar.
Í önnum dagsins vilja menn oft gleyma aldraða fólkinu.  En það eru þó einmitt þeir öldnu, sem greitt hafa götuna og búið í haginn fyrir komandi kynslóðir.
Því er það gleðilegt að Akureyringar skuli nú loks hafa sýnt það í verki, að þeir meti störf aldraða fólksins og vilji hlúa að þeim, sem þreyttir eru orðnir eftir langan og erilsaman starfsdag.
Það var laust eftir 1920 að á fundi í kvenfél. Framtíðinni var fyrst rætt um þörfina á að elliheimili kæmist á fót hér í bæ, og í ársbyrjun 1923 leggur kvenfél. fram rúmar 1000,00 kr. sem vísi að elliheimilissjóði.
Síðan hafa félagskonur, á margvíslegan hátt, safnað fé til sjóðsins, að undanskildum þeim árum er verið var að koma hér upp Fjórðungssjúkrahúsinu, er konur einbeittu sér að fjáröflun til stuðnings því málefni.  Enda var það talið meira aðkallandi að fullkomið sjúkrahús kæmist hér upp.
Þegar sjúkrahúsmálið var komið í örugga höfn fóru félagskonur aftur að vinna fyrir Elliheimilissjóðinn.
Ég vil við þetta tækifæri þakka Framtíðarkonum öll þeirra störf, sem unnin hafa verið af mikilli fórnfýsi og áhuga fyrir þessu göfuga málefni.
Ég vil líka þakka þeim mörgu, er gefið hafa peningagjafir í Elliheimilissjóð Framtíðarinnar.  Þær gjafir eru bærði stórar og smáar, allt eftir efnum og ástæðum gefenda.  En hverri gjöf hafa fylgt innilegar óskir um að þessi bygging mætti sem fyrst rísa af grunni og verða öldruðu fólki það athvarf og skjól sem það verðskuldar.
Á þessum hátíðisdegi afhendir kvenfél. Framtíðin Elliheimili Akureyrar að gjöf kr 1.000.000,00  með einlægri ósk um að ætíð ríki eining innan veggja þessarar stofnunar, og að blessun Guðs megi hvíla yfir þeim störfum, sem hér verða unnin.
Ég vil biðja yður hr. bæjarstjóri að veita móttöku gjöf þessari, sem hér er skjalfest með undirskrift stjórnar kvenfélagsins Framtíðin.

                                                                        29. ágúst 1962

                                       Ingibjörg Halldórsdóttir (sign)
                                                 formaður
Áslaug Einarsdóttir (sign)                                                 Margrét Kröyer (sign)
         ritari                                                                             gjaldkeri

 Eftir að Ingibjörg afhenti gjöfina tók Jón Þorvaldsson, formaður stjórnar Elliheimilisins, til máls og las upp gjafabréf frá Byggingavöruverslun Tómasar Björnssonar sem hljóðaði upp á 30 þúsund krónur til bókakaupa fyrir vistmenn.  Síðan flutti sr. Pétur Sigurgeirsson bæn og kirkjukórinn söng undir stjórn Jakobs Tryggvasonar.

Ræða Ingibjargar er meðal þeirra skjala sem kvenfélagið Framtíðin hefur falið héraðsskjalasafninu til  varðveislu og er gestum velkomið að koma og kynna sér þau betur, sem og önnur skjöl um þetta efni. Um baráttu Framtíðarkvenna fyrir elliheimilinu má lesa meira í bók Steindórs Steindórssonar og Sverris Pálssonar um félagið.