Vatnsveitunefnd semur við Vilhjálm á Hesjuvöllum

Fundargerð vatnsveitunefndar 4. október 1913
Fundargerð vatnsveitunefndar 4. október 1913

Haustið 1913 var bóndinn á Hesjuvöllum, Vilhjálmur Jónasson, kallaður á fund vatnsveitunefndar sem gerði honum tilboð. Hvað fyndist Vilhjálmi um að fá 325 krónur í eitt skipti fyrir öll fyrir vatnsréttindin í landi Hesjuvalla?

 

Þetta voru nánast tvöföld árslaun vinnukonu í sveit, vissi Vilhjálmur, laun ökumanna í bænum voru 60 aurar fyrir mann, vagn og hest á klukkustund, og verkafólk var með 30 aura á tímann. En svo mátti finna annan samanburð. Árið eftir, eða 1914, brá Ragnar Ólafsson sér til útlanda og hafði þá milligöngu um að útvega lán til vatnsveitunnar og annaðist samninga um flutning á vatnspípum til bæjarins. Þegar hann kom heim aftur óskaði hann eftir því að bæjarsjóður greiddi sér 250 krónur upp í ferðakostnað. Um sumarið vann Þorkell Þorkelsson gagnfræðaskólakennari um mánaðartíma að vatnsleiðslunni og fór fram á 150 krónur fyrir starfann. Hvorug krafan þótti nein heimtufrekja, þvert á móti. Þær voru sanngjarnar að áliti oddvita bæjarins og greiddar með glöðu geði.

Það er því sama hvort samkomulag bæjarins við Vilhjálm er sett undir mæliker samtímans eða ársins 1913 útkoman verður ávallt hin sama: aldrei hvorki fyrr né síðar hefur Akureyrarbær gert hagstæðari samning en þegar hann samdi um vatnsréttindin í landi Hesjuvalla snemma í október árið 1913 – og greiddi fyrir 325 krónur.

Textinn er kominn frá Jóni Hjaltasyni sagnfræðingi.