Upphaf götulýsingar á Akureyri

Ýmis kostnaður fylgdi götulýsingunni en steinolían kostaði mest
Ýmis kostnaður fylgdi götulýsingunni en steinolían kostaði mest

Fyrir skemmstu fengum við fyrirspurn um upphaf götulýsingar á Akureyri.  Saga götulýsingar á Akureyri hefur ekki verið skrifuð en í fundargerðum bæjarstjórnar má sjá að farið var að huga að götulýsingu árið 1891.

Það var svo í apríl 1896 sem bæjarstjórn ákvað að kaupa tíu ljósker er skyldu standa:

1) við kirkjuna (við Aðalstræti)
2) á húsi P. Þorgrímssonar (Aðalstræti 38)
3) á sölubúð Fr. Kristjánssonar (Hafnarstræti 2)
4) á pakkhúsi E. Laxdals (Hafnarstræti 13)
5) á sölubúð Johnasons (Aðalstræti 1)  
6) á Möllershúsi (Aðalstræti 8)
7) á húsi Houskens (Strandgata 23)
8) á Gránufélagshúsi (Strandgata 49)
9) á húsi Sn. Jónssonar (Strandgata 29)
10) á veginum milli Oddeyrar og Akureyrar efst (u.þ.b. við Samkomuhúsið)

J. Havsten bauðst til að gefa lukt á sitt hús (Strandgata 35) , ef hann fengi steinolíu á hana og var það samþykkt.

Ári síðar var þremur ljóskerum bætt við, eitt skyldi vera í Gilinu (Búðargil), annað á bakaríinu (Hafnarstræti 23) og það þriðja fyrir utan forvaðann (var fyrir norðan Samkomuhúsið).  Samkvæmt þessu voru götuluktirnar a.m.k. 14 um aldamótin 1900 og kannski bættust fleiri við næstu árin en fram kemur í Norðurlandi 4. ágúst 1906 að götuljósin á Akureyri séu sannnefndar grútartýrur. Næstu tvo áratugina var ljóskerunum fjölgað smátt og smátt og þegar bærinn var raflýstur 30. september 1922 var búið að setja upp 75 ljósastaura í bænum. Það breytti samt litlu um heildarsvip bæjarins því perur vantaði í staurana en þær komu þó seinna um haustið.