Tónlistarskólinn á Akureyri 70 ára

Úr fundargerðabók Tónlistarbandalags Akureyrar
Úr fundargerðabók Tónlistarbandalags Akureyrar

Laugardagurinn 20. febrúar s.l. var dagur tónlistarskólanna.  Tónlistarskólinn á Akureyri hélt upp á daginn með stórtónleikum þar sem fram komu hljómsveitin 200.000 naglbítar og um 400 nemendur skólans. Flutt voru lög naglbítanna ásamt vel þekktum lögum, meðal annars í flutningi Helenu Eyjólfs en hún var leynigestur tónleikanna.

En það var ekki aðeins dagur tónlistarskólanna sem verið var að fagna heldur einnig því að nú á þessu ári eru 70 ár síðan Tónlistarskólinn á Akureyri var stofnaður.

Það var í ársbyrjun árið 1946 sem fulltrúar frá Tónlistarfélagi Akureyrar, Karlakórnum Geysi, Karlakór Akureyrar og Lúðrasveit Akureyrar mættu til fundar í Skjaldborg og stofnuðu Tónlistarbandalag Akureyrar.  Stofnun og rekstur tónlistarskóla var eitt af markmiðum bandalagsins. 

Skólinn var settur í fyrsta sinn þann 20. janúar og fyrsti skólastjóri og kennari var Margrét Eiríksdóttir.  Nemendur voru 27, allir í píanóleik.  Þegar skólinn fagnaði 40 ára afmæli sínu árið 1986 voru nemendur um 500, kennarar voru 25 og kenndu á 25 mismunandi hljóðfæri.

Mánudaginn 22. desember 1986 hélt skólanefnd Tónlistarskólans fund en á þeim fundi var samþykkt eftirfarandi bókun:

Í framhaldi af samþykkt skólanefndar Tónlistarskólans frá 21. maí 1986 og bæjarstjórnar Akureyrar frá 4. desember 1986 um færslu á eignaraðild og rekstri skólans til Akureyrarbæjar, lýsir skólanefnd því yfir að hún, fyrir hönd Tónlistarbandalags Akureyrar, afhendir hér með Akureyrarbæ skólann til eignar og reksturs. – Skólanefnd mælist til að í væntanlegri reglugerð skólans verði ákvæði er tryggi samband stjórnar skólans við Tónlistarbandalagið um málefni skólans.

Fundargerðabók skólanefndarinnar eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu en yfirlit yfir önnur gögn tónlistarskólans sem varðveitt eru á safninu er að finna hér.