Sorphaugarnir við Gránufélagsgötu

Myndin er tekin við Oddeyrarósinn og sýnir neðstu húsin við Gránufélagsgötu. Hörgsland er lengst til…
Myndin er tekin við Oddeyrarósinn og sýnir neðstu húsin við Gránufélagsgötu. Hörgsland er lengst til vinstri, þá Litla-Reykjavík, síðan Gránufélagsgata 55, sunnan götunnar er dökkleitt pakkhús og loks Nordpolen eða Norðurpóllinn. (Ljósm. Gunnar Thorarensen)

Mannvist hófst á Oddeyri 1858 og skömmu síðar eða 1866 var Oddeyrin lögð til Akureyrarkaupstaðar. Gránufélagið eignaðist Oddeyrina 1871 og verslunarhús þess reis skömmu síðar. Upp frá því fór húsum að fjölga á Eyrinni og önnur starfsemi að dafna. Þó svo að einhver hús risu Eyrinni og götur eins og Strandgata, Lundargata, Norðurgata og Gránufélagsgata yrðu til þá var mestur hluti Eyrinnar óbyggður áfram. Um Eyrina liðuðust lækir sem áttu sitt upphaf í Gleránni en þeir gátu breyst í foráttu fljót í leysingum og valdið íbúunum vandræðum. Síki og pollar voru víða og stundum var talað um síkjalandið á Oddeyri. Svo var það Oddeyrarósinn, sem skildi að Oddeyrina og neðsta hluta hennar. Fyrstu húsin á Tanganum voru lifrarbræðsluhús (Grúthús), síldarsöltunarstöðvar og fiskverkunarhús.

Í Verkamanninum 1934 skrifar ,,verkamaður“:

Það eru nú liðin nokkur ár síðan bæjarstjórn Akureyrar fann upp þá sparnaðarráðstöfun að fylla upp forardýkin á Eyrinni beggja vegna við Gránufélagsgötu, með sorpi, sem til felst í bænum. Ekki mun hafa verið deilt um það að nauðsynlegt væri að fylla þessi óþrifadýki og pestarbæli, sem liggja svo nærri bústöðum manna./../Þvert á móti sýnist það eins og það sé verið að gera leik til þess að safna öllum óþrifnaði bæjarins á þann stað þar sem flestir geti notið þess að horfa á hann og anda að sér ódauninum sem af honum leggur. Beggja vegna við aðalgötuna á Eyrinni er sopinu dreyft út án þess að jafnað sé úr því né hulið yfir nema endrum og eins, það rotnar svo og maðkar það sem maðkað getur í sumarhitanum.

Auðvitað vissu ráðendur bæjarins af þessu vandamáli og af og til höfðu málin verið rædd í viðeigandi nefnd eða jafnvel bæjarstjórn. Þannig lagði Elísabet Eiríksdóttir fram tillögu í bæjarstjórn árið 1931 að sorpið yrði flutt út úr bænum en sú tillaga var felld. Og árin liðu, án mikilla breytinga að því er virðist, því í Íslendingi í ágúst 1945 segir: ,,Forardíkin og ruslahaugarnir neðst á Oddeyrinni eru að sínu leyti jafnmikil bæjarskömm og Lystigarðurinn er mikil bæjarprýði. Uppfyllingunni við Oddeyrarósinn verður að hraða, svo íbúarnir við Gránufélagsgötu og þeir sem leggja leið sína um götuna, losni sem fyrst við ódauninn og óþverrann.

Um sumarið 1946 voru öskuhaugarnir fluttir í malarkrús ofan við Gróðrarstöðina. Í stað þess að ólyktin lægi yfir Oddeyrinni ætlaði hún Innbæinga lifandi að drepa og kæfði gróðrarilminn frá Gróðrarstöðinni.   

Heimildir:

A-25/8  Fundargerðir bæjarstjórnar. Fundargerðabók 1923-1932.
Jón Hjaltason, 2004: Saga Akureyrar IV. 
Jón Hjaltason, 2009: Saga Akureyrar V. 
,,Sorphaugarnir við Gránufélagsgötu“, Verkamaðurinn 31. júlí 1934.
,,Þankabrot Jóns í Grófinni“, Íslendingur 17. ágúst 1945.