Sólmánuður og lækningajurtir

Hvönnin er þekkt nytjajurt.   Ljósmynd: Aðalbjörg Sigmarsdóttir
Hvönnin er þekkt nytjajurt. Ljósmynd: Aðalbjörg Sigmarsdóttir

Samkvæmt gömlu íslensku tímatali hófst sólmánuður á mánudagi í 9. viku sumars, eða á tímabilinu 18. til 24. júní.  Jónsmessuna ber því upp á fyrsta dag sólmánaðar þetta árið. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal sagði m.a. um sólmánuð í riti sínu Atli, sem út kom í Hrappsey árið 1780, að fyrst í sólmánuði færu menn á grasafjall og söfnuðu jurtum sem ætlaðar væru til lækninga.

Það er einnig gömul þjóðtrú að nokkrar grastegundir á að vera gott að tína á Jónsmessunótt og sumar jurtir sem nota á til lækninga eða galdra er beinlínis nauðsynlegt að tína á Jónsmessunótt eigi þær að koma að gagni. Á safninu er nokkuð til af handritum og leiðbeiningum hvernig nota má jurtir til þess að lækna ýmsa kvilla og mein og þar á meðal er handrit sem komið er frá Vesturheimi og nefnist Um grös og annað nýtilegt sem betra er að vita en án að vera.  Þar segir um vallhumal:

 

Eða með nokkuð nútímalegum rithætti:

Vallhumall, annar lágur og smár annar hár með miklum skúfi í kollinum (þess vegna tvennslags) það brúka þeir sem vilja vita hver frá sér stelur, en hitt er til lækninga það lága sé það saxað smátt og soðið saman við sauðasmjör það sem strokkað er á Jónsmessunótt og grasið tekið þá sömu nótt er sá besti plástur við sár og skurði ákomur og fleira soddan, sé það í brennivíni soðið og vel heitt drukkið drepur það takverki, sé það í messuvíni soðið læknar það öll útvortis sár á manni sé það við lagt.

Jónsgras eður Lyfjagras vex í deiglendi gott við skurði fleiður og annað soddan.

Reyrgras það gefur góða lykt, það í klæði og bækur látið ver það möl og maur að eta þær.

Sortulyng tuggið en ei niður rennt mun duga við brjóstsviða.