Páll Jónsson Árdal (1857-1930) skáld og kennari

Páll J. Árdal          (Minjasafnið á Akureyri)
Páll J. Árdal (Minjasafnið á Akureyri)

Páll Jónsson Árdal fæddist að Helgastöðum í Eyjafirði 1. febrúar 1857 eða fyrir rúmum 160 árum síðan. Páll ólst upp á Helgastöðum og fór síðan í Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og tók þaðan próf 1882. Strax og Páll hafði lokið námi sínu á Möðruvöllum fór hann að fást við kennslu en stundaði um langt skeið jafnframt vegagerð á sumrum. Hann kenndi fyrst austur á Fljótsdalshéraði en frá 1883 til 1926 við Barnaskólann á Akureyri.

Páli var mjög eiginlegt að fræða og kryddaði hann gjarnan kennsluna og frásögn með sögum, bæði raunverulegum og þeim sem hann bjó til sjálfur um leið. Mörg stílsefni hans voru sögur, sem hann bjó til jafnóðum og börnin skrifuðu. Flestar væru þær um dýr og voru þær jafnan gerðar með það fyrir augum að vekja ást barnanna til dýranna og samúð með þeim því Páll var mjög mikill dýravinur.

Páll var sjálfmenntaður náttúrufræðingur og gaf út Ágrip af náttúrusögu og var hún lengi helsta kennslubókin í barnaskólum.

Páll fékkst við blaðamennsku og var ritstjóri Norðurljóssins 1886-90 og Stefnis 1893-97.

Páll var gott skáld en hann samdi mörg leikrit og ljóð. Af leikritum hans mun ,,Skjaldvör tröllkona“ vera þekktust en Skjaldvör ætlaði að sækja Hildi bóndadóttur á jólanóttina og hafa í matinn en hafði ekki erindi sem erfiði í því. Svo þekkjum við mörg sönginn um hana Þyrnirós sem var besta barn og um mömmu sem fengi það besta (Ef væri ég söngvari) en þessi ljóð eru eftir Pál, ásamt mörgum öðrum þekktum.

Páll var bæjarfulltrúi á Akureyri 1885-88.

Hann lést á Akureyri 24. maí 1930.

Eiginkona Páls var Álfheiður Eyjólfsdóttir (1862-1930).

Yfirlit yfir efni frá Páli sem varðveitt er á Héraðsskjalasafninu er að finna hér. Á einkaskjalasafn.is má sjá að efni frá Páli eða honum tengt er varðveitt á fleiri skjalasöfnum. Til gamans má geta þess að efni frá Páli var notað á kynningardegi skjalasafna árið 2015. Sjá um það betur hér.