Norrænn skjaladagur 2021 - Grísaból á Akureyri

Grísaból við Mýrarveg á Akureyri
Ljósm. Gunnlaugur P. Kristinsson. Minjasafnið á Akureyri
Grísaból við Mýrarveg á Akureyri
Ljósm. Gunnlaugur P. Kristinsson. Minjasafnið á Akureyri

Mjólkursamlag KEA tók til starfa árið 1928 og fljótlega vaknaði áhugi forsvarsmanna samlagsins á að nýta betur mysu, undanrennu og annað sem til féll við mjólkurvinnsluna. Með það í huga hófst undirbúningur að stofnun svínabús, sem helst átti að vera í nágrenni við Mjólkursamlagið. Eftir nokkrar tilraunir fékkst loksins leyfi til þess að reisa svínabú á erfðafestulandi sem KEA átti ofarlega á brekkunni, rétt norðan og ofan við gatnamót Þingvallastrætis og Mýrarvegar. Þetta var árið 1932 og sama ár var reit þarna allstórt svínabú, sem fékk heitið Grísaból.

Grísaból brann til kaldra kola í nóvember 1936. Í húsinu voru 80 svín og drápust 38 þeirra. Hinum var bjargað. Grísaból var byggt upp aftur á sama stað. Þegar Samband nautgriparæktarfélaga í Eyjafirði (SNE) kom upp sæðingarstöð árið 1946 var henni fundinn staður í Grísabóli. Þegar tímar liðu tók SNE við rekstri Grísabóls.

Þegar Grísaból var reist var það góðan spöl fyrir ofan byggðina en með árunum færðist byggðin nær og raddir um að Grísabólið yrði fjarlægt urðu háværari. Árið 1962 var svo komið að ekki færri en 400 svín og 37 kálfar áttu heimili þarna í jaðri bæjarins. Íbúar við Mýrarveg báru sig illa. ,,Akureyri hefur ávallt þótt fagur og aðlaðandi bær", skrifar íbúi við Mýrarveg vorið 1962. ,,Hér hefur verið mikið um fagra trjágarða, og litskrúðug blómabeð glatt augu vegfarandans. Trjá- og blómaanganin berst með blænum að vitum manna, og gerir alla glaða í skapi og létta í lund." En hvers eigum við við að gjalda, velti hann fyrir sér. ,,Í sunnan- og suðvestangolunni er vart líft hér, hvorki utan húss né innan, fyrir óþef, sem leggur frá Grísabóli og skepnunum þar."

Ekki þótti hyggilegt að hætta rekstri svínabúsins og var ákveðið að reisa nýtt Grísaból að Rangárvöllum. Nýja húsið á Rangárvöllum var tilbúið í nóvember 1968 og í júní 1969 voru gömlu byggingarnar í bænum auglýstar til niðurrifs. Síðar var verslunarmiðstöðin Kaupangur byggð þar sem Grísaból hafði verið en fyrstu búðirnar í Kaupangi voru opnaðar í mars 1975.

Síðustu svínunum á Grísabóli á Rangárvöllum var slátrað í kjölfar þess að leyfi til búreksturs þar rann út í ágúst 1984.

 

Heimildir:

Byggðir Eyjafjarðar. 1973. I. bindi. Ritnefnd: Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson. Akureyri, Búnaðarsamband Eyjafjarðar.
Freyr. 43 árg. (1948); 15.-16. tbl. bls. 252
Jón Hjaltason 2004. Saga Akureyrar. IV. bindi. Vályndir tímar. Akureyri, Akureyrarbær.
Óskar Þór Halldórsson, 1993: ,,Búnaðarsamband Eyjafjarðar 1970-1990." Byggðir Eyjafjarðar 1990. Fyrra bindi. Akureyri, Búnaðarsamband Eyjafjarðar, bls.9-35.