Jón Davíðsson (1837-1923) bóndi Litla-Hamri, Kroppi, Hvassafelli og Reykhúsum

Reykhús um 1900
Reykhús um 1900

Jón Davíðsson fæddist 7. janúar 1837 í Kristnesi í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Davíð Jónsson og Sigríður Davíðsdóttir, bændur í Kristnesi 1830-40 og Litla-Hamri 1840-75. Jón Davíðsson bjó á Litla-Hamri 1875-79, á Kroppi 1879-89, í Hvassafelli 1889-1900 og í Reykhúsum 1900-02. Jón lést 8. maí 1923 í Reykhúsum.

Fyrri kona Jóns (1870) var Rósa Pálsdóttir (1849-85). Börn þeirra voru: Davíð (1872-1951), María (1874-1954), Páll (1876-77), Sigríður (1879-80), Páll (1883-1925) og Sigríður (1880-99). Seinni kona Jóns (1889) var Sigríður Guðrún Tómasdóttir (1838-99)

Á Héraðsskjalasafninu eru varðveitt dagbókarskrif Jóns 1890-1923 og einnig æviminningaþættir hans sjálfs. Því miður er hvorugt heilt en samt sem áður er hvor tveggja góðar heimildir um mannlíf í Eyjafirði á þessum tíma.

Grípum niður í æviminningar Jóns (stafsetningu breytt):

Nú vil ég minnast dálítið á fjölmenna samkomu, sem við Eyfirðingar höfðum á Espihólnum á gamlaárskvöld 1874, til að kveðja þetta stórmerka þjóðhátíðarár. Var byggt allmikið hús, eða tópt, á hólnum mikla mill bæjanna, úr ísstykkjum, sem voru löguð dálítið til og felld saman. Var þar settur upp ræðustóll, og borð til veitinga, hvorttveggja úr ís. Til lýsingar var höfð steinolía í potti, sem kveikt var í og varð allmikið bál, en nokkuð reykjarsamt. Var þar fjörugt og glaðvært, og ræðuhöld allmikil. Mælti ég þar fyrir minni Helga magra sem fyrstur nam Eyjafjörð, og minntist á það meðal annars, hve mikið happ það væri fyrir okkur, að fá að lifa þetta mikla fagnaðarár, sem ,,kóngar og spámenn“ hefðu óskað sér að mega lifa og líta, og var tekið undir það með fagnaðarópi. Ég mælti og fyrir minni kvenna, og sagði meðal annars, að nú ættum við að fara að mennta og virða kvenfólkið meira en verið hefði. Held ég að þessi tala hafið verið með því fyrsta, sem talað var opinberlega um þetta efni, að minnsta kosti hér norðanlands og held ég að þetta skraf mitt hafið komið mörgum á óvart. Því að þá hafði fæstum komið til hugar, eða komið auga á, að rétti kvenna væri hallað móts við karlmennina, og því síður að þær hefðu nokkuð með meiri menntun og réttindi að gera en þær höfðu haft, né heldur ættu neina heimting á því. Margir töluðu og fleiri, og þótti þetta góð skemmtun og nýstárleg.

Rósa kona Jóns lést af barnsförum.  Jón að skrifaði eftirfarandi um aðdraganda seinna hjónabandsins í æviminningum sínum: 

Ég reyndi að bera mig vel og láta ekki sjá á mér mikinn bilbug þó ég væri orðinn ekkill en hið innra með sjálfum mér kenndi ég þó oft tómleika og saknaðar, því að hjúskapur og heimilislíf hafði verið mitt líf og yndi. Og mér fannst næstum að líf mitt hefði aðallega byrjað um leið og ég eignaðist konu og börn. Um þessar mundir var það á stundum að margs konar hugsanir fóru að gera vart við sig og brjótast um í huga mínum, og þar á meðal sú spurning hvort ég ætti ekki að breyta eitthvað til um hagi mína, ef ég sæi einhvern veg, sem mér virtist líklegur til að gera mér lífið að einhverju leyti léttara og ánægjulegra. Um þetta hugsaði ég allmikið og bar það líka undir álit systra minna, sem voru því fremur fylgjandi, meðfram fyrir þá sök, að þær voru ekki heilsusterkar og kenndu vanmáttar síns til að geta veitt búi mínu og börnum nægilega forstöðu.

Jón flutti í Hvassafell um vorið 1889 og hóf búskap með Sigríði frændkonu sinni.  Jón skrifaði m.a. um selferðir í Hvassafelli.

Síðasta afmælisdaginn skrifaði Jón í dagbókina sína:

Hér má lesa nánar um hvað varðveitt er á Héraðsskjalasafninu frá Jóni og hans fólki.