Jakob Tryggvason (1907-99), orgelleikari og tónlistarkennari

Jakob Tryggvason fæddist að Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 31. janúar 1907. Hann hóf nám í orgelleik við fermingaraldur í heimabyggð en fór seinna til Reykjavíkur og sótti einkatíma og var í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Jakob var ráðinn orgelleikari við Akureyrarkirkju 1941 og sinnti því starfi til 1945 er hann fór til framhaldsnáms í London. Þar var Jakob við nám í The Royal Academy of Music til ársins 1948. Frá þeim tíma var hann organleikari við Akureyrarkirkju óslitið til ársins 1986.
Jakob var kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Akureyrar frá 1950-1974 og stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar um tuttugu ára skeið. Hann stjórnaði Lúðrasveit Barnaskóla Akureyrar um árabil og kenndi tónmennt við Oddeyrarskóla.

Jakob þjálfaði Smárakvartettinn á Akureyri og síðar Geysiskvartettinn og lék undir með þeim báðum. Þá stjórnaði hann kvennakórnum Gígjunum á Akureyri. Eftir Jakob liggur fjöldi útsetninga á sönglögum og kirkjutónlist, auk nokkurra frumsaminna verka. Jakob var kjörinn heiðursfélagi Lúðrasveitar Akureyrar árið 1967, Félags íslenskra organleikara árið 1991 og Kórs Glerárkirkju árið 1994. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1980.

Jakob lést 13. mars 1999.

Nótur skrifaðar af Jakob.

Leiðbeiningar Jakobs til ungra tónlistarnema.

Skrá yfir efni Jakobs á safninu er að finna hér.